„Þetta var eiginlega óraunverulegt“

Breiðablik tryggði sér í gær sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar með 3:0 sigri á heimavelli gegn Osijek frá Króatíu en fyrri leikur liðanna fór 1:1. Óhætt er að segja að um sé að ræða eitt merkasta afrek íslensks félagsliðs.

Með Breiðabliki leika Austfirðingarnir Heiðdís Lillýardóttir og markvörðurinn Telma Ívarsdóttir en auk þeirra lék Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir með liðinu í sumar en hún hélt í síðasta mánuði út til Bandaríkjanna þar sem hún er að hefja nám við hinn virta Harvard-háskóla.

Telma segir að það hafi verið erfitt að átta sig á afrekinu eftir sigurinn í gær. „Þetta var eiginlega óraunverulegt. Maður áttaði sig ekki á hvað þetta þýddi og hversu merkilegt þetta er fyrr en maður fór að lesa það sem skrifað var um leikinn í gærkvöldi,“ segir Telma Ívarsdóttir um afrekið. „Við vissum lítið um liðið þegar við spiluðum fyrri leikinn við það úti. Við vissum ekki alveg við hverju var að búast en í leiknum í gær leið okkur vel. Við vorum á okkar heimavelli, með okkar stuðningsmenn sem voru alveg frábærir.“

Meistaradeild Evrópu er stærsta keppni sem félagslið getur tekið þátt í og Breiðablik er fyrsta íslenska liðið til að leika í riðlakeppni hennar. Dregið verður í riðlana á mánudaginn næsta og getur Breiðablik dregist í riðla með liðum eins og; Barcelona, Bayern Munich, PSG, Chelsea, Juventus og Real Madrid svo einhver séu nefnd. „Þetta er mjög spennandi verkefni en það verður sérstakt að æfa á fullu fram í desember, íslensk lið eru ekki vön að spila alvöru leiki svo seint á árinu. Það verður sérstakt að vera að keppa í Meistaradeildinni þegar Íslandsmótið er búið,“ segir Telma og bætir við að skiptar skoðanir séu milli liðsmanna hvernig draumariðillinn sé. „Ég persónulega væri mjög til í það að dragast í riðil með Bayern Munich eða Chelsea.“

Það eru býsna stórir leikir framundan hjá Breiðabliki á næstunni. Þær hafa misst af Íslandsmeistaratitlinum sem Valur hefur tryggt sér en enn á eftir að leika eina umferð í Íslandsmótinu. Breiðablik getur enn unnið titil í ár en liðið leikur gegn Þrótti Reykjavík í bikarúrslitum 1. október næstkomandi, tæpri viku fyrir fyrsta leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Telma hefur verið í Breiðablik í síðan 2016 þegar hún skipti yfir úr uppeldisfélagi sínu Fjarðabyggð en tímabilið í ár er hennar fyrsta sem aðalmarkvörður liðsins. „Það hefur verið mjög gaman að standa loksins á stóra sviðinu. Breiðablik vill berjast um alla titla sem í boði eru og það er krefjandi að spila undir svoleiðis pressu. Ég er heilt yfir ánægð með spilamennsku mína í sumar en hún hefur þó verið upp og ofan. Það voru vonbrigði fyrir liðið að missa af Íslandsmeistaratitlinum en við erum aðeins einum sigri frá bikarmeistaratitlinum. Það eru stórir leikir framundan hjá okkur,“ segir Telma að endingu og kveðst spennt fyrir komandi vikum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar