Þrír Íslandsmeistarar í frjálsum
UÍA eignaðist þrjá Íslandsmeistara í frjálsíþróttum um helgina en keppendur sambandsins gerðu góða ferð á Meistaramót 15-22 ára sem haldið var í Hafnarfirði. Allir fjórir keppendurnir að austan náðu á verðlaunapall og ýmist bættu sinn besta árangur eða voru nálægt því.
Mikael Máni Freysson sigraði í hástökki 18-19 ára með að fara yfir 1,83 metra. Hann varð annar í þrístökki með að stökkva 12,44 metra sem er hans besti árangur. Í langstökki vann hann ekki til verðlauna en náði sínum besta árangri í sumar.
Helga Jóna Svansdóttir sigraði í þrístökki 18-19 með stökki upp á 10,32 metra. Hún fékk einnig brons í langstökki og 100 metra spretthlaupi auk silfurs í 100 metra grindahlaupi.
Daði Þór Jóhannsson sigraði í þrístökki 16-17 ára pilta þegar hann stökk 12,18 metra. Steingrímur Örn Þorsteinsson varð þar þriðji með stökki upp á 11,70 metra sem er hans besti árangur. Daði fékk að auki brons í langstökki.
Í samtali við Austurfrétt sagðist Lovísa Hreinsdóttir, þjálfari keppendanna, vera „ótrúlega stolt. Þetta sýnir hvað við getum gert hvernig sem aðstaðan er.“
Keppendurnir að austan æfa við góðar aðstæður á Vilhjálmsvelli á sumrin en fá aðeins tvo tíma í íþróttahúsinu á Egilsstöðum á veturna. Mótherjar þeirra af höfuðborgarsvæðinu æfa hins vegar frjálsíþróttir innanhúss á veturna í sérstökum höllum.
Þessar aðstæður útskýra meðal annars af hverju Austfirðingarnir ná fyrst og fremst árangri í stökkum. „Á veturna getum við frekar æft stökk heldur en að taka langa spretti,“ útskýrir Lovísa.
Keppendurnir fá núna smá hvíld eftir utanhússtímabilið áður en æfingar hefjast fyrir innanhússtímabilið sem fer af stað eftir áramót. Lovísa segir erfitt að spá fyrir um hversu langt keppendurnir fjórir geta náð í sínum greinum. „Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi til að halda áfram.“
Stórmót eru framundan eystra á næsta ári þegar Meistaramót Íslands 11-14 ára verður haldið auk Unglingalandsmóts UMFÍ. „Það verður spennandi að sjá þessi yngstu byrja sinn keppnisferil á heimavelli. Það er alltaf gaman fyrir þau.“
Lovísa viðurkennir hins vegar að frjálsíþróttir eigi á brattann að sækja í fjórðungnum. „Höttur er eina félagið sem heldu úti æfingum allt árið og þar höfum við séð blómlegra starf með fleiri iðkendum.“
Hún vonast til árangurinn um helgina verði hvatning fyrir fleiri. „Árangurinn skiptir þau máli persónulega en það skiptir líka máli fyrir aðra iðkendur að hafa svona flottar fyrirmyndir. Á æfingum hjá okkur blandast allir árgangar saman, sem getur verið gott á ýmsa vegu og þau sem eldri eru styðja vel við þau yngri.“
Daði Þór og Steingrímur Örn saman á palli. Mynd: Lovísa Hreinsdóttir