Þrír nýir erlendir leikmenn til Hattar

Körfuknattleiksdeild Hattar hefur komist að samkomulagi við þrjá erlenda leikmenn um að leika með liðinu næsta vetur. Miðherjinn Mirko Stefán Virijevic, sem leikið hefur með liðinu þrjú undanfarin tímabil, hefur lagt skóna á hilluna.

Um er að ræða Bandaríkjamann, Spánverja og Litháa. Nýjar reglur eru gengnar í gegn hjá Körfuknattleikssambandinu, áður mátti aðeins vera með einn erlendan leikmann inn á í einu en eftir athugasemd um að það bryti í bága við reglur Evrópusambandsins má nú nota eins marga leikmenn af því svæði og hægt er.

Löng hefð er fyrir bandarískum leikmönnum hjá Hetti en á síðustu leiktíð lék lengst af með því Kelvin Lewis. Sá skipti til Finnlands þegar ljóst var að Höttur félli úr úrvalsdeildinni og lauk ekki tímabilinu.

Charles Bird Clark er ætlað að fylla hans skarð í bakvarðarstöðunni. Clark er 22ja ár agamall sem lék með Carson Newman háskólanum í annarri deild NCAA þar sem hann skoraði 21 stig að meðaltali í leik á loka ári sínu, auk þess að taka 4,8 fráköst og 4,2 stoðsendingar.

Höttur hefur einnig staðfest komu litháíska miðherjans Pranas Skurdauskas. Sá spilaði síðasta vetur á Ítalíu en hefur lengst af leikið í heimalandinu. Pranas stendur á þrítugu og á að baki leiki með unglingalandsliðum Litháen. Honum er ætlað að koma í stað Mirko Stefáns Virijevic sem lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil að loknum þremur vetrum hjá Hetti.

Höttur hefur einnig misst íslensku framherjana Bergþór Ríkharðsson, sem genginn er til liðs við úrvalsdeildarlið Skallagríms og Gísla Hallsson sem farinn er heim í Sindra á Höfn. Hornfirðingar áunnu sér keppnisrétt í fyrstu deildinni í vor og mun Gísli því mæta fyrrum félögum sínum í Hetti í vetur.

Til liðsins er á móti kominn David G. Ramos, tveggja metra framherji frá Spáni sem leyst getur nokkrar stöður á vellinum. Hann hefur spilaði í heimlandinu síðustu ár.

Auk þessara snúa þeir Ásmundur Hrafn Magnússon og Einar Bjarni Hermannsson aftur til liðsins en þeir hafa verið í Reykjavík í námi síðustu ár.

Áfram verða í herbúðum liðsins þeir Sigmar Hákonarson, Andrée Michaelsson, Hreinn Gunnar Birgisson, Nökkvi Jarl Óskarsson og Brynjar Grétarsson. Þá hefur verið staðfest að Oddur Benediktsson aðstoði Viðar Örn Hafsteinsson áfram við þjálfun liðsins.

Mynd: Hilmar Sigbjörnsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.