Þrír nýir leikmenn með Hetti í fyrsta leik ársins
Þrír nýir leikmenn eru í leikmannahópi Hattar sem er á leið á Ísafjörð til að leika gegn Vestra í fyrsta leik nýs árs í fyrstu deild karla í körfuknattleik á morgun. Liðin berjast hatrammlega um möguleikann á að leika í úrvalsdeildinni á næsta ári.„Við lögðum af stað í morgun og erum á Akureyri. Við erum með meistaraflokk og drengjaflokk. Við keyrum svo heim eftir leik. Ef við vinnum þá verðum við glaðir á heimleiðinni,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson þegar Austurfrétt hafði tal af honum fyrir hádegið.
Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum frá því fyrir áramót. Félagið rifti samningi sínum við miðherjann Pranas Skurdauskas og framherinn David Ramos sleit krossband í síðasta leik ársins.
Þá eru Hreinn Gunnar Birgisson og Andrée Michaelsson ekki með um helgina vegna meiðsla og veikinda. „Það hefði verið erfitt að vera án þeirra fyrir áramót en við erum komnir með meiri breidd nú og getum orðið flottir með tíð og tíma.“
Til Hattar eru komnir framherjinn Eysteinn Bjarni Ævarsson sem alinn er upp hjá félaginu en hefur síðasta eina og hálfa árið leikið með Stjörnunni. „Eysteinn Bjarni er fluttur heim og verður okkur mikill styrkur.“
Þá kemur þýski miðherjinn André Huges frá Vestra sem byrjar á að mæta liðinu sem hann lék með fyrir áramót og skoraði að meðaltali 21 stig í leik fyrir. „Hann er 2,03 m á hæð og fínn íþróttamaður sem hentar trúlega okkar leik betur en stærri maður.“
Þá hefur Höttur samið við Króatann Dino Stipcic sem lék með KR fyrir áramót. „Dino getur leyst ýmsar stöður á vellinum og er hörkuleikmaður,“ segir Viðar.
Höttur og Vestri eru hlið við hlið í deildinni, í þriðja og fjórða sæti, bæði með sjö sigra þegar keppnin er hálfnuð. Þór er með góða stöðu í efsta sætinu, sem gefur sjálfkrafa sæti í úrvalsdeild, en í næstu sætum á eftir koma Fjölnir, Vestri, Höttur og Hamar. Liðin í sætum 2 – 5 spila úrslitakeppni um annað sæti í úrvalsdeildinni.
„Við höfum tapað þremur leikjum, sem allt voru hörkuleikir, en líka unnið með litlum mun. Við þurfum að bæta aðeins í ef við ætlum okkur stóra hluti.“