Þrjár stelpur frá Einherja í landsliðsúrtaki: Búnar að vinna fyrir árangrinum

Þrjár stelpur frá Einherja á Vopnafirði hafa verið valdar í úrtakshóp fyrir landsliðs kvenna 15 ára og yngri í knattspyrnu. Þjálfari stelpnanna sýnir árangur stelpnanna sanna að ýmislegt sé hægt ef fólk ætli sér það.

„Þær ætla sér langt og þekkja ekkert annað en að leggja hart að sér. Þær eru búnar að vinna fyrir þessum árangri,“ segir Sigurður Donys Sigurðsson, sem þjálfað hefur stelpurnar frá því þær vor sex ára gamlar.

Þetta eru þær Amanda Lind Elmarsdóttir, Kamilla Huld Jónsdóttir og Sara Líf Magnúsdóttir. Að sögn Sigurðar hafa hæfileikar fleiri stelpna í sama flokki frá Einherja vaktið töluverða athygli. Kamilla Huld og Sara Líf eru fæddar árið 2004 en Amanda Lind 2005, sem gerir valið á henni enn eftirtektarverðara.

Einherji, Breiðablik, ÍBV og Stjarnan

Úrtakshópurinn kemur saman til æfinga eftir rúma viku. Það hefur vakið athygli víða að jafn lítið félag og Einherji eigi þrjár stelpur í landsliðsúrtakinu. Að Sigurðar eru fleiri stelpur úr þessum árgöngum á Vopnafirði sem þykja einkar efnilegar.

Alls eru 32 stelpur í úrtakshópnum, flestar frá Stjörnunni, ÍBV og Breiðabliki, fjórar. Einherji er eina liðið sem á þrjár en tvær koma frá Haukum, ÍA, Val og Fylki. Þarna er um að ræða félög með langa hefð í kvennaknattspyrnu með margfalt meiri íbúafjölda að baki sér en Einherji.

„Þetta er sigur fyrir félagið og Vopnfirðinga og sýnir að allt er hægt ef maður ætlar sér það. Hugarfar þessara stelpna er einstakt og þær tilbúnar að leggja á sig vinnu. Foreldrarnir eru líka tilbúnir að leggja á sig hvað það sem þarf til að hjálpa þessum stelpum til að ná enn lengra. Ég er stoltur fyrir hönd þeirra, Einherja og Vopnfirðinga,“ segir Sigurður Donys.

Einherji hefur síðustu ár sameinað tvo áranga í flokkum til að ná liðum til keppni. Þar hefur liðið náð eftirtektarverðum árangri og komst meðal annars í úrslitakeppni A-liða á landsvísu í fjórða flokki síðasta sumar. „Við höfum lagt mikla áherslu á liðsheildina. Til að ná árangri þarf hver og einn að leggja sig fram.“

Notar austfirskar fyrirmyndir til hvatningar

Fleiri austfirskar knattspyrnur hafa náð árangri síðustu daga en Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir frá Egilsstöðum var í vikunni valin í U-19 ára landsliðið sem tekur þátt í fjögurra landa móti í byrjun mars. Áslaug Munda var í sumar í meistaraflokki Breiðabliks sem varð bæði Íslands- og bikarmeistari.

„Ég hef sagt stelpunum frá Áslaugu Mundu og nota hana sem fyrirmynd. Við eigum fullt af flottum fyrirmyndum hér austan,“ segir Sigurður Donys.

Hann segist helst óttast að stelpurnar verði ekki mikið lengur á Vopnafirði og leiti annað til að svala metnaði sínum. Enn er óljóst með þátttöku meistaraflokks karla og kvenna Einherja í Íslandsmótinu í sumar. Ekki hefur tekist að fullmanna liðið né ráða þjálfara fyrir hvorugt lið. Ný stjórn var kosin á aðalfundi í gærkvöldi og bíður hennar það verk að undirbúa liðin fyrir sumarið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar