Þrjú mörk og þrjú rauð spjöld á Vilhjálmsvelli - Myndir

Það var boðið upp á grannaslag með öllu tilheyrandi í gær þegar Einherji sótti Hött/Huginn heim á Vilhjálmsvöll. Gestirnir skoruðu sigurmark í lokin og upp úr sauð að leik loknum.

Höttur/Huginn byrjaði betur og uppskáru mark á 10. mínútu, en það var framherjinn stæðilegi Eiríkur Þór Bjarkason sem það gerði. Heimamenn virtust hafa góð tök á leiknum og náðu að skapa sér fleiri færi án þess að nýta þau, á meðan gestirnir frá Vopnafirði ógnuðu helst með misgóðum skotum utan af velli. Staðan því 1-0 í hálfleik og í byrjun þess síðari var fátt sem leit út fyrir að nokkuð myndi breytast í gangi leiksins, en það átti þó svo sannarlega eftir að gerast.

Eftir um klukkustundarleik kom framherjinn Recoe Martin inn á í liði gestanna og hann náði síðan að jafna leikinn á 71. mínútu. Við jöfnunarmarkið færðust Einherjamenn allir í aukana en fát kom á heimamenn og að lokum var það Todor Hristov sem skoraði á 87. mínútu það sem reyndist sigurmark Einherja.


Urðu hræddir við að tapa

„Við vorum flottir í 60 mínútur, skoruðum mark og hefðum átt að skora fleiri. En eftir því sem leið á leikinn komust þeir meira inn í leikinn og í staðinn fyrir að við klárum jöfnuðu þeir og gengu síðan á lagið í lokin. Við hættum að spila boltanum um miðjan síðari hálfleikinn og fórum að nota langa bolta og þeir voru að vinna þá bolta frekar, bæði fyrsta og annan bolta. Síðan var bara meiri kraftur í þeim þarna undir lokin meðan við koðnuðum svolítið niður. Við urðum bara hræddir við að tapa held ég, þetta var svolítið andlegt þarna undir það síðasta,“ sagði Viðar Jónsson, þjálfari Hattar/Hugins. Hann gat þó tekið jákvæða punkta úr leik sinna manna. „Ég var sáttur við frammistöðuna stóran hluta af leiknum, hvernig við vorum að halda boltanum og það var meira sjálfstraust í liðinu. Við vorum að skapa okkur slatta af færum líka en það sem við þurfum að bæta er varnarvinnan. Það er of auðvelt að skora á okkur mörk.“


Gátu höndlað pressuna

Ashley Civil, þjálfari Einherja, var eðlilega sáttur við frammistöðu sinna manna í leiknum. „Þetta var strembinn leikur en eftir því sem staðan var lengur 1-0 þá fannst mér við verða stöðugt líklegri til að ná einhverju út úr leiknum, sérstaklega eftir að við jöfnuðum. Það hvernig við lögðum þennan leik upp og spiluðum hann skilaði sér á endanum og það var lykilatriði að halda leikskipulaginu og upplegginu þó við lentum undir.“

Leikmönnum var nokkuð heitt í hamsi, nánast allan leikinn, enda um grannaslag að ræða. Ashley sagði það hafa haft sín áhrif á leikinn og taldi Einherjamenn hafa staðið sig betur undir þeirri pressu sem þarna skapaðist. „Mér fannst mínir menn höndla þetta vel í leiknum. Kannski ekki svo vel eftir að flautað var af, en í leiknum fannst mér við ná að nýta þetta til að knýja okkur áfram og auka trúna á að við gætum sótt þennan sigur, meðan þetta virtist fara meira í taugarnar á andstæðingunum og vann gegn þeim. En það eru einmitt svona leikir sem maður vill vera þátttakandi í, bæði ég sem þjálfari og leikmennirnir.“

Eftir fjórar umferðir er ef til vill ekki forsenda til að tala um að sigurinn sé sérstaklega mikilvægur, en Ashley gat þó tekið undir það að nokkru leyti. „Okkur leið eins og þetta væri mikilvægur sigur. Við höfum verið að spila vel fram að þessu en ekki náð fram úrslitunum sem við vildum. Vonandi getum við byggt á þessum leik og notað hann okkur til góða í þeim næsta.“


Spjöld á lofti

Eins og áður hefur verið minnst á sauð upp úr undir lokin. Recoe Martin fékk að líta rauða spjaldið á 90. mínútu og eftir að flautað var af lenti leikmönnum saman með þeim afleiðingum að þeir Ramiro David De Lillo úr liði Hattar/Hugins og Einherjamaðurinn Sigurður Vopni Vatnsdal fengu reisupassann sömuleiðis. Þessir leikmenn verða því að líkindum í leikbanni í næstu umferð á sunnudag, en þá tekur Einherji á móti Vængjum Júpíters á meðan Höttur/Huginn heldur suður og etur kappi við Reyni í Sandgerði.

Eftir leikinn er Einherji með 4 stig eftir fjórar umferðir en situr þó enn í tíunda sæti 3. deildar. Höttur/Huginn er í 11. sæti með 1 stig, jafnmörg og botnlið Vængja Júpíters.

 

HHE1

HHE3

HHE2

HHE4

HHE6

HHE7

HHE8

HHE9

HHE10

HHE11

HHE12

HHE13

HHE14

HHE15

HHE16

HHE18

HHE19

HHE20

HHE21

HHE22

HHE23

HHE24

HHE25

HHE26

Myndir: UE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.