Þróttarar nýkomnir heim af Norðurlandamótum í blaki

Fjórir leikmenn Þróttar Neskaupstað eru nýkomnir heim af NEVZA-mótum í blaki með íslensku U-19 og U-17 ára landsliðunum.

Þær Ester Rún Jónsdóttir og Heiðbrá Björgvinsdóttir voru með U-19 ára liði kvenna sem lenti í fimmta sæti í sínu aldursflokki um síðustu helgi. Liðið náði fimmta sætinu með að leggja England í oddahrinu en á mótinu keppa lið þaðan og frá Norðurlöndunum.

Fleiri gamalkunnir Norðfirðingar fylgdu hópnum. Borja Vicente þjálfaði liðið og Gígja Guðnadóttir, Fáskrúðsfirðingur sem spilaði með Þrótti, var honum til aðstoðar.

Áður höfðu U-17 liðin tekið þátt í NEVZA-móti um miðjan október. Stúlknaliðið náði glæsilegum árangri og varð í þriðja sæti. Hrefna Ágústa Marinósdóttir var í liðinu auk þess sem Ramses Ballesteros, leikmaður og þjálfari hjá Þrótti, var aðstoðarþjálfari.

Jakob Kristjánsson var í drengjaliðinu sem endaði í sjötta sæti. Kristján Ágústsdóttir var fararstjóri með hópunum. U-19 ára mótið var haldið í Rovaniemi í Finnlandi en U-17 mótið í Ikast í Danmörku.

Úrvalsdeildarlið Þróttar spila gegn KA á Akureyri um helgina. Karlaliðið í kvöld. Það hefur tapað fyrstu tveimur leikjunum en er þó með eitt stig eftir að hafa farið með fyrsta leikinn í oddahrinu. KA hefur unnið tvo en tapað einum.

Kvennaliðið spilar á sunnudag. Það hefur einnig tapað fyrstu tveimur leikjunum. KA hefur unnið einn og tapað öðrum.

Ester Rún Jónsdóttir spilaði með U-19 ára landsliðinu á NEVZA um síðustu helgi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar