Þróttarstelpur úr leik: Byrjum strax að undirbúa undanúrslitin í bikarnum - Myndir
Kvennalið Þróttar er úr leik í undanúrslitum Íslandsmótsins í blaki eftir 1-3 ósigur gegn Aftureldingu á Norðfirði í öðrum leik liðanna í gærkvöldi. Þjálfari liðsins sá þó ljósa punkta í leikslok en liðin mætast á ný eftir tíu dag í undanúrslitum bikarkeppninnar.
Afturelding hafði yfirburði í fyrstu hrinunni og vann hana 12-25. Önnu hrinan var jöfn en þegar leið á hana náði Þróttur undirtökunum og vann 25-23.
Þróttur spilaði líka vel í þriðju hrinunni sem tapaðist 22-25, eiginlega rétt í lokin. Afturelding vann síðan fjórðu hrinuna 20-25. Síðustu mínúturnar lék Þróttur án eins af sínu sterkustu mönnum, Maríu Rún Karlsdóttur sem glímdi við meiðsli í blaki.
Þrátt fyrir Þróttur félli úr leik horfði þjálfarinn Borja Gonzalez á jákvæðu hliðarnar í leiknum að honum loknum. „Við spiluðum vel eftir að hafa orðið fyrir áfalli um helgina þegar tveir af okkar bestu leikmönnum meiddust og við töpuðum illa.
Við spiluðum ekki vel í fyrstu hrinunni en eftir hana skoruðum við alltaf yfir 20 stig. Það sýnir að við getum unnið þær og það er eitthvað til að byggja ofan á.“
Hann sagði fjarveru Maríu síðustu mínúturnar ekki hafa gert gæfumuninn. „Hún var kannski í 40% leikformi og það var áhætta að láta hana spila en hún mat það sjálf að hún væri leikhæf. Ég vildi ekki taka mikla áhættu með hana því þessi meiðsli geta versnað. Við fengum líka leikmenn inn af bekknum sem stóðu sig vel.“
Liðin mætast aftur eftir tíu daga í undanúrslitum bikarkeppninnar. „Vegna þeirra meiðsla sem voru í hópnum fórum við meira að hugsa um þann leik. Við byrjum strax á morgun að undirbúa hann og vonumst þá til að vera í betra formi.“