Þróttur úr leik: Markmiðið náðist en vildum meira

Karlalið Þróttar er úr leik í úrslitakeppni Íslandsmótsins í blaki eftir tap í oddahrinu gegn HK í Neskaupstað í gærkvöldi. Þjálfari liðsins segir það hafa sýnt góðan leik en fyrst og síðast óheppni orðið því að falli.


„Það tók okkur að komast í gang og það er alltaf slæmt að tapa en þetta var frábær leikur,“ sagði Ana Vidal, þjálfari Þróttar eftir leikinn.

Gestirnir í HK unnu fyrstu tvær hrinurnar 18-25 og 20-25 en Þróttur svaraði með að vinna 25-23 og 27-25. Þróttur var í vandræðum í þriðju hrinunni en fór í gang eftir að hafa lent fjórum stigum undir, 13-17.

Reiðikast kveikti í liðinu

Birkir Freyr Elvarsson kom inn til að taka uppgjöf í stöðunni 15-13, klúðraði henni og var skipt út af. Hann var ósáttur við sjálfan sig, sýndi af sér óíþróttamannslega framkomu og fékk rautt spjald frá dómara leiksins, sem í blaki þýðir ekki útilokun heldur að hitt liðið fær sendiréttinn og stig.

Þetta atvik virtist kveikja í Þrótti sem snéri hrinunni sér í vil. „Við þurftum eitthvað til að koma okkur í gang og þetta atvik virtist vera það.“

Þróttur hafði frumkvæðið í oddahrinunni og gat tryggt sér sigurinn í stöðunni 15-14 en HK skoraði síðustu þrjú stigin og vann eftir upphækkun, 15-17.

„Það var blanda af mistökum og óheppni sem varð okkur að falli. Við fengum tækifæri til að vinna hrinuna,“ sagði Ana.

Framfarir eftir jól

Þar með er tímabili karlaliðsins lokið en liðið féll úr leik í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar. Ana segist heilt yfir ánægð með tímabilið.

„Markmiðið var að komast í undanúrslitum en þegar þangað er komið vill maður alltaf meira. Mér finnst liði hafa bætt sig eftir jól. Ef við hefðum sýnt sama leik fyrir jól þá hefðum við náð öðrum úrslitum.

Við fengum nokkra nýja leikmenn sem efldu okkur en í vetur höfum við líka gefið yngri leikmönnum tækifæri sem félagið þarf á að halda í framtíðinni.

Ég er stolt af liðinu eftir gærkvöldið, það sýndi að það getur spilað vel og sýnt gott blak.“

Ana segir óvíst hvernig leikmannahópurinn verði skipaður á næsta ári en hún þjálfi það að minnsta kosti ári í viðbót. „Við viljum halda áfram með okkar verkefni og verða fyrirmynd annarra félaga.“

Kvennaliðið þarf sigur í kvöld

Kvennalið Þróttar spilar annan leik sinn í undanúrslitum við Aftureldingu í kvöld og þarf á sigri að halda til að knýja fram oddaleik. María Rún Karlsdóttir hefur verið meidd í baki og Ana Vidal snéri sig á ökkla um helgina en verður leikfær í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:00.

Mynd: Jóhanna Kristín Hauksdóttir

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.