Þróttur vill endurskoða fyrirkomulag samæfinga í knattspyrnu

Stjórn knattspyrnudeildar Þróttar Neskaupstað hefur lagt til að fyrirkomulag samæfinga hjá yngri flokkum Fjarðabyggðar (YFF) í 5. og 6. flokki karla og kvenna í knattspyrnu verði endurskoðað. Framkvæmdastjóri Þróttar segir hugmyndirnar settar fram til sparnaðar en þær hafa ekki enn hlotið hljómgrunn annarra félaga í samstarfinu.

„Við höfum viljað breyta æfingafyrirkomulaginu. Það er dýrt og við eigum ekki alltaf fyrir því.,“ segir Eysteinn Þór Kristinsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Þróttar.

Stjórn deildarinnar sendi í vikunni frá sér yfirlýsingu til foreldra og forráðamanna iðkenda þar sem fram kemur að hún vilji ekki taka þátt í samæfingum YFF að óbreyttu. Þar er skýrt frá því að óskað hafi verið eftir að haldin verði ein æfing í mánuði í 5. og 6. flokki. Í þessum flokkum eru börn á aldrinum 8-11 ára. Vetrarstarf YFF hófst í vikunni.

Illa nýttar rútuferðir

Iðkendur víða frá knattspyrnudeildum í sveitarfélaginu Fjarðabyggð hittast vikulega á sameiginlegum æfingum í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði. Þess utan heldur Þróttur tvær æfingar í viku í Neskaupstað. Félögin sem standa að YFF samstarfinu þjálfurum laun fyrir samæfingarnar en sveitarfélagið leggur til rútur sem ferja iðkendur á æfingarnar. Eysteinn segir að með að fækka æfingunum sé hægt að minnka kostnað við þjálfara.

Í yfirlýsingu Þróttar er bent á að rútuferðirnar fyrir þessa flokka hafi verið illa nýttar árum saman. Eysteinn segir það meðal annars því knattspyrnuæfingarnar rekist á við æfingar í öðrum greinum í Neskaupstað, erfitt sé að bregðast við því enda meira framboð af hinu góða.

Hann segir hugmyndir Þróttar meðal annars ganga út á að hafa samæfingarnar um helgar og þá lengri en nú er og þar verði fleira til gamans gert en bara að spila fótbolta. Þá bendir hann á að þau börn sem sæki samæfingarnar verji til þess um tveimur tímum í ferðir og bið.

Hugmyndir Þróttar ekki fengið hljómgrunn meðal annarra 

Eysteinn segir að Þróttur hafi lagt mest til YFF-samstarfsins fjárhagslega verandi stærsta félagið í því. Stjórn knattspyrnudeildar Þróttar telji það hins vegar ekki endilega sanngjarna skiptingu. Eysteinn bendir á að öll félögin fái ákveðið framlag frá Knattspyrnusamband Íslands til yngri flokka starfs auk þess sem YFF hafi sinnt fjáröflunum vel. Réttara sé að nota þessi framlög og sameiginlegar fjáraflanir í samstarfið.

Hann viðurkennir þó að hugmyndir Þróttar hafi vakið misjöfn viðbrögð víða. „Það eru ekki allir jafn hrifnir. Við erum bara eitt félag í samstarfinu. Við viljum taka ákvörðun í sameiningu,“ segir hann. Bæði stjórn knattspyrnudeildar Þróttar og stjórn YFF munu funda í næstu viku og bindur Eysteinn vonir við að þar leysist málið. „Vonandi gera þau það farsællega. Menn óska ekki eftir neinum deilum.“

Davíð Þór Magnússon, formaður YFF, segir þörf á að ræða málin. „Þróttur hefur lagt fram hugmyndir sem ekki hafa fengið hljómgrunn innan YFF. Þetta er mál sem þarf að ræða. YFF snýst um að halda góðu samstarfi.“

Í yfirlýsingu Þróttar er tekið fram hugmyndirnar gangi ekki út á að slíta samstarfi innan YFF. Áfram verði sent sameiginlegt til á mót í 5. og 6. Flokki, enda hafi það gengið vel. Þá nái hugmyndirnar sem nú hafi verið settar fram ekki til annarra flokka innan YFF.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.