Þurfa 90 sjálfboðaliða í frjálsíþróttirnar
Seyðisfjarðarvegi verður lokað að hluta um verslunarmannahelgina og verður strætisvagn gerður út til að draga úr umferðarþunga á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina þar sem Unglingalandsmót UMFÍ fer fram. Unnið er að því að þétta raðirnar í hópi sjálfboðaliða.Gert er ráð fyrir á annað þúsund keppendum á aldrinum 11-18 ára á mótið og allt að 10.000 mótsgestum. Hugsanlegt er að mannfjöldinn raski daglegu lífi Héraðsbúa.
Íbúafundur var haldinn vegna mótsins á Egilsstöðum á miðvikudag. Þar hvatti Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, bæjarbúa til að taka vel á móti gestunum. Í næstu viku verður utanumhald mótsins kynnt með dreifibréfi á Egilsstöðum. „Við fáum marga gesti af öllu landinu og mikla umfjöllun þannig að ásýnd og viðmót skipta máli,“ sagði Björn.
Seyðisfjarðarveginum verður aðeins lokað að hluta á sunnudeginum um verslunarmannahelgina vegna keppni í götuhjólreiðum sem fram fer á Unglingalandsmótinu. Jafnframt því verður leitað eftir því að draga úr umferð með því að bjóða upp á strætóferðir frá tjaldsvæði mótsgesta til helstu keppnissvæða. Götunni Skógarlöndum verður lokað við Valaskjálf yfir helgina.
Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ, hefur fundað með sérgreinarstjórum þeirra rúmlega 20 greina sem í boði verða á mótinu sem og forsvarsmönnum sveitarfélagsins. Hann var sáttur eftir fundina og sagði alla verkþætti á áætlun.
Erla Gunnlaugsdóttir, starfmaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) sagði á fundinum engan sjálfboðaliða eiga að vinna í tíu tíma á Unglingalandsmóti UMFÍ. Leitað verði eftir því að hafa þá sem flesta.
„Við þurfum 90 sjálfboðaliða í frjálsíþróttirnar. Það eru margvísleg verkefni í boði við mótið,“ segir Erla. Hún benti á að UÍA leggja sitt af mörkum til að aðstoða sérgreinarstjóra að finna sjálfboðaliða svo enginn vinni of mikið á meðan því stendur.
Hún sagði UÍA vera að undirbúa sitt lið. Meðal annars hafi sambandið ákveðið að niðurgreiða keppnisgjöld sinna félagsmanna til að hvetja Austfirðinga til þátttöku.