„Til að skjóta vel þarf mikinn aga“

Daníel Baldursson úr Skotíþróttafélagi Austurlands (SKAUST) varð í íslenska landsliðinu sem varð í fimmta sæti í keppni með trissuboga á Evrópumóti U-21 árs í bogfimi innanhúss. Það er besti árangur sem liðið hefur náð. Daníel varð svo í 17. sæti í einstaklingskeppninni og stefnir á að ná enn lengra í greininni.

„Áhugi minn á þessu sporti eykst nánast dag frá degi og ég finn vel að ég er að bæta mig reglulega. Sjálfur hef ég ásett mér að ná árangri í bogfimi næstu árin og ætla ekki að hvika neitt frá því markmiði,“ segir Daníel.

Hann reyndi fyrir sér í nokkrum íþróttagreinum áður en bogfimin hitti hann í hjartastað. „Ég var meðal annars um tíma í fótboltanum, svo í körfubolta og reyndi fimleika en einhvern veginn var ekkert að fanga mig neitt þannig fyrr en ég prófaði tíma í bogfimi hjá Haraldi (Gústafssyni).

Þá hafði einn vinur minn prófað tíma og ég ákvað að fara með og kanna þetta, fannst þetta strax lúmskt gaman og hef eiginlega verið þar allar götur síðan.

Það sem er gaman er bara að skjóta og til að skjóta vel þá þarf mikinn aga. Inn í þetta bætist að félagsskapurinn er alveg frábær í kringum sportið og þetta hentaði mér mjög vel strax frá upphafi og gerir enn.

Það hjálpað mikið að hafa hann Harald sem þjálfara. Hann er ekki bara frábær bogfimimaður sjálfur heldur hefur hann gott lag á að kenna og hefur hjálpað mér mikið á tiltölulega skömmum tíma. Svo er gaman að sjá hvað bogfimi er í miklum vexti nánast alls staðar um þessar mundir.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar