Tímabært að austfirskt kvennalið komist hærra

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir tekur á móti Fram í hreinum úrslitaleik um hvort liðið komist upp úr annarri deild kvenna á morgun. Þjálfari liðsins segir mikla tilhlökkun fyrir leiknum sem skipti máli fyrir framtíð austfirskrar kvennaknattspyrnu.

„Spennan er mikil og við erum full tilhlökkunar. Við þurfum að mæta vel stemmdar til leiks því annað er ekki í boði,“ segir Björgvin Karl Gunnarsson, þjálfari Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis.

Þrjár landsdeildir eru í íslenskri kvennaknattspyrnu og er önnur deildin neðst þeirra. Austfjarðaliðið var lengi í baráttu um að fara upp á síðasta ári en komst ekki. Liðið vann síðan deildina sjálfa í sumar örugglega, tapaði einum leik og gerði eitt jafntefli, en breytt keppnisfyrirkomulag vegna fjölgunar liða varð til þess að liðið þarf í gegnum úrslitakeppni.

Smáatriðin skipta máli

Liðið mætti Fram í Safamýri um síðustu helgi í leik sem lauk með 1-1 jafntefli. Liðin mætast öðru sinni í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 13:00 á morgun og þar verður leikið til þrautar því það lið sem hefur betur fer upp í fyrstu deild.

„Lið Fram er álíka og okkar. Það hefur spræka Íslendinga og öfluga erlenda leikmenn. Síðan er í liðinu mjög góður Austfirðingur, Halla Helgadóttir.

Við erum bjartsýn fyrir morgundaginn enda á heimavelli. Fyrri leikurinn var nokkuð jafn þótt ég vilji meina að við höfum fengið fleiri afgerandi færi. Í seinni hálfleik fengum við mjög góð færi sem við hefðum nýtt á góðum degi. En fótbolti er fótbolti og ein mistök geta breytt svona leik.“

Björgvin Karl kveðst bjartsýnn á að geta stillt upp sínu sterkasta liði þar sem allir leikmenn liðsins séu heilir. Einn leikmaður meiddist smávægilega á æfingu í vikunni en á að vera orðinn klár. Liðið verður þó að bjarta sér án Alex Taberner sem farin er heim til Spánar eftir að hafa skorað 18 mörk í sumar. „Við eigum aðra leikmenn sem eru ekki síðri,“ segir Björgvin Karl.

Vilja gott lið fram yfir framhaldsskólann

Hann segir leikinn á morgun mikilvægan fyrir austfirska kvennaknattspyrnu. „Það er orðið tímabært að kvennalið af Austurlandi lyfti sér hærra. Við höfum í gegnum tíðina alið upp þokkalega leikmenn en þeir hafa þurft að fara í burtu helst strax á framhaldsskólaaldri til að geta tekið næsta skref. Við viljum geta boðið upp á lið sem spilar góðan bolta þar til stelpurnar eru búnar í framhaldsskóla.

Vonandi tekst okkur að komast upp í ár því það myndi lyfta öllu upp í kringum liðið. Það er samt enginn heimsendir þótt það takist ekki en ef við verðum áfram í þessari deild má búast við að bestu leikmennirnir haldi áfram að fara.

Við erum að eignast töluvert af efnilegum leikmönnum, meðal annars stelpur sem hafa komist í U-15 ára landsliðið og í vikunni var Freyja Karín Þorvarðardóttir valin í U-19 ára liðið.“

Hann segir að mikil framför hafi orðið á umgjörðinni í kringum liðið undanfarin þrjú tímabil. „Þegar ég var ráðinn í byrjun árs 2019 mætti ég með lista yfir hluti sem ég vildi ráðast í og það var tekin ákvörðun um að fylgja þeim eftir. Það var ekki hægt að gera allt á fyrsta ári en flest atriðin eru komin á góðan stað.

Það er komin öflug umgjörð í kringum liðið, fyrirtæki styðja við það, fólk mætir á heimaleikinn auk þess sem við erum með sterka Austfirðinga í liðinu og efnilega leikmenn á leiðinni. Við viljum gefa í og til þess myndi hjálpa að komast upp.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar