Tinna Rut í raðir Lindesberg

Tinna Rut Þórarinsdóttir, tvítug blakkona úr Þrótti Neskaupstað, skrifaði í síðustu viku undir samning við sænska úrvalsdeildarliðið Lindesberg og mun leika með því næsta vetur.

Tinna Rut hefur leikið með meistaraflokki frá tímabilinu 2015-16 og var í liðinu sem varð þrefaldur meistari vorið 2018. Hún hefur verið lykilmaður í stöðu kantsmassara hjá Þrótti síðustu tvo vetur.

Hún á að baki tvo leiki með íslenska A-landsliðinu en auk þess hefur hún leikið með yngri landsliðum.

Í viðtali við heimasíðu Lindesberg segist Tinna Rut hafa viljað reyna eitthvað nýtt eftir að hafa æft með Þrótti frá sex ára aldri. Á þessum tímamótum hafi hún meðal annars horft til Svíþjóðar. Í framtíðinni stefnir hún á nám í einhverju tengdu íþróttinni, svo sem íþróttafræðum eða sjúkraþjálfun.

Norðfirðingar eiga þegar fulltrúa í sænsku deildinni þar sem Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir spilar með Halmstad. Það lið var í þriðja sæti deildarinnar en Lindesberg í því sjötta áður en keppni var aflýst vegna Covid-19 faraldursins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar