Toppar á réttum tíma fyrir Ólympíuleikana

Ingeborg Eide Garðarsdóttir frá Fáskrúðsfirð var meðal þeirra fimm íþróttamanna sem á laugardag flugu til Parísar þar sem Paralympics, eða Ólympíuleikar fólks með fötlun, verða settir á miðvikudag. Ingeborg, sem keppir í kúluvarp, hefur einbeitt sér að íþróttinni á þessu ári með góðum árangri.

Ingeborg Eide á ættir meðal annars að rekja til Fáskrúðsfjarðar þar sem hún ólst upp fyrstu tvö árin en foreldrar hennar ákváðu þá að flytja á höfuðborgarsvæðið þar sem hún fengi betri þjónustu.

Ingeborg fæddist með svokallaða CP helftarlömun sem gerir að verkum að hún er með lömun og spasma í hægri hendi og fæti. Slík lömun þýðir að Ingeborg á erfiðra með allar fínhreyfingar og hefur ekki sama vöðvastyrk þeim megin og vinstra megin.

Þó Ingeborg hafi meira og minna síðan búið suðvestanlands kemur hún reglulega austur þar sem móðir hennar, ættingjar margir og vinir búa og segist enn eiga sterkar rætur í fjórðunginn þó langt sé síðan hún flutti.

Magnað ár


Um síðustu áramót ákvað Ingeborg að helga sig alfarið íþróttunum og setti stefnuna á Ólympíuleikana. „Ég ákvað að hætta að vinna samhliða íþróttaiðkuninni en það hafði ég gert allan tímann fram að því. Mig langaði að prófa að einbeita mér hundrað prósent og sjá hvert það myndi leiða mig. Það er nefnilega ekki alveg besti kostur að vakna fimm á morgnana til að taka æfingu áður en vinna hefst klukkan 8 eða 9 og svo fara aftur á æfingu að vinnudegi loknum.

Ég fann alveg að ég átti meira inni en ég hafði sýnt fram að því svo ég hef frá áramótum eingöngu verið að sinna kúluvarpinu,“ segir Ingeborg. Hún hefur æft alla daga vikunnar nema sunnudag, þar af mætir hún á tvær æfingar tvo daga vikunnar.

Þetta hefur leitt til þess að hún hefur tvisvar bætt Íslandsmetið í flokki F37, flokki hreyfihamlaðra. Hún kastaði 9,83 metra á móti á Ítalíu í apríl. Skömmu áður varð hún fjórða á heimsbikarmóti.

Vön stórmótum


Aðalmarkmiðið er hins vegar að gera vel á leikunum í París. Ingeborg keppir klukkan 17:15 að íslenskum tíma á laugardag. „Ég varð afar ánægð að fá að vita að ég kæmist með enda mitt fyrsta skipti á þessu móti. Ég er þó orðin nokkuð sjóuð í mótum svona almennt gegnum tíðina og verð ekki neitt sérstaklega stressuð jafnvel þó mótin séu nokkuð stór eins og Evrópumót eða slíkt. En hugsanlega slær hjartað aðeins hraðar á Ólympíuleikum.

Umgjörðin auðvitað miklu stærri en á öllum öðrum mótum. Þá taka þar þátt allir bestu íþróttamenn heims og allt keppnisfólkið býr á einu og sama svæðinu. Þetta verður öðruvísi en ábyggilega skemmtilegt og spennandi og ég þegar orðin spennt.

Íslenski hópurinn sem keppir á Paralympics 2024. Ingeborg er fyrir miðju. Mynd: Íþróttasamband fatlaðra


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar