Tour de Ormurinn á morgun

Hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn verður haldin á morgun í áttunda sinn. Vegfarendur á svonefndum Fljótsdalshring eru beðnir um að gæta varúðar þar sem hjólreiðafólkið verður á ferðinni.

Keppnin verður að vanda ræst klukkan níu í fyrramálið við Söluskála N1 á Egilsstöðum. Í kringum ræsinguna verður þjóðveginum fyrir neðan Söluskálann lokað.

Keppendur hjóla síðan eftir Egilsstaðanesi yfir í Fellabæ þaðan sem beygt er inn eftir. Takmarkanir verða á umferð meðan hjólreiðafólkið fer þar um.

Í boði eru tvær vegalengdir, 68 og 103 km. Keppendur í styttri hringnum beygja fyrir neðan Hengifoss yfir í átt að Hallormsstað meðan þeir sem fara lengri leiðina halda áfram upp í Norðurdal Fljótsdals.

Búast má við að fyrstu keppendur í styttri hringnum komi í mark rétt fyrir klukkan ellefu en þeir fyrstu úr lengri hringnum upp úr hádegi. Síðustu keppendur ættu að renna í mark á þriðja tímanum. Á meðan keppendur koma í mark verður aftur gripið til lokana á leiðinni fyrir neðan Söluskálann. Brautarverðir verða staðsettir á umferðarmiklum gatnamótum og varasömum köflum, auk þess sem bílar eru á undan og eftir keppendahópnum, en vegfarendur á svæðinu eru beðnir um að sýna aðgát á meðan keppninni stendur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar