Tour de Ormurinn; „Ekki bara fyrir ofurfólk í spandexgöllum og vaxbornar augabrúnir“
Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið, en skráning er hafin í hjólreiðakeppnina Tour de Ormurinn sem haldin verður á Fljótsdalshéraði í ágúst.
Það eru UÍA og Austurför sem standa að keppninni með stuðningi frá Fljótsdalshéraði, Fljótsdalshreppi, Þjónustusamfélaginu á Héraði og Landsbankanum.
Hægt er að velja milli tveggja leiða, sem báðar liggja við Lagarfljótið. Annars vegar „Umhverfis Orminn langa“, sem er 68 km leið, en þar er bæði boðið upp á einstaklings- og liðakeppni. Hins vegar er það „Hörkutólahringurinn“, sem er 103 km löng leið. Þar er eingöngu boðið upp á einstaklingskeppni.
Hildur Bergsdóttir, framkvæmdastýra UÍA, segir að þrátt fyrir að ágúst virðist kannski ekki handan við hornið hefði ekki verið úr vegi að opna fyrir skráningar í keppnina enn fyrr.
„Við erum bara tímalega í þessu eins og aðrar keppnir í þessum bransa, en margir okkar keppenda koma að sunnan og norðan og þurfa að gera ráðstafanir langt fram í tímann varðandi flug og gistingu og sjálfsagt að taka tillit til þess. Gistirými á svæðinu eru óðum að fyllast og þegar við áttuðum okkur á því ákváðum við að opna fyrir skráningu,“ segir Hildur.
Gífurleg aukning á hjólreiðum
Er þetta fimmta árið í röð sem Tour de Ormurinn er haldinn og segist Hildur finna fyrir mikilli auklingu og áhuga á íþróttinni á þessu tímabili.
„Það hefur verið gífurleg vaknina á hljólreiðum almennt og byggjum við okkar keppni upp á þann hátt að sem flestir geti tekið þátt, ekki aðeins ofurfólkið í spandexgöllunum með vaxbornar augabrúnir. Tour de Ormurinn á því að vera keppni fyrir alla jafnt þá sem geysast yfir á alvöru græjum í kapp við tímann, sem og þá sem finnst áskorun í sjálfum sér að klára vegalengdina.
Samhliða því að byggja hér upp flotta hjólreiðakeppni sem vonandi laðar að sér hjólreiðafólk frá öllum lands- og heimshornum langar okkur að efla hjólreiðamenninguna hér á svæðinu. Skipuleggendur keppninnar komu því hópnum Hjólaormar á Héraði á laggirnar og í tengslum við hann hittst hjólreiðafólk og hjólar saman yfir sumartímann. Það er ánægjulegt að sjá að þetta virðist vera að skila sér og æi fleiri heimamenn taka þátt í keppnina.
Við höfum hægt og sígandi verið að byggja upp hliðarviðburðadagskrá sem spannar alla keppnishelgina og er tengd hjólreiðum, hreyfingu og gleði, og verið þá með viðburði jafnt fyrir almenning og keppendur,“ segir Hildur.
Austfirskt er okkar aðalsmerki
Hildur segir að markmiðið sé ekki að berjast við stærri keppnirnar fyrir sunnan eða eltast við þau viðmið sem þar eru sett.
„Það er okkar aðalsmerki að vera austfirksk og kannski svolítið krúttleg keppni sem kemur beint frá hjartanum. Hjólaleiðin er ofsalega falleg og við gerum út á náttúruna sem er algerlega einstök og gleðina sem fylgir því að hjóla og njóta þess að vera til.
Verðlaunin okkar eru líka af öðrum toga og þar nýtum við austfirskt handverk – vorum með heimaprjónaða vettlinga í fyrra og verðlaunapeningar og bikarar voru úr tré úr Hallormsstaðaskógi. Einnig buðum við keppendum okkar í Óbyggðasetrið þar sem farið var í leiki úti á túni og söng og gleði í baðstofunni. Þetta er það sem við viljum standa fyrir, upplifum í rólegu og stresslausu umhverfi.“
Öflug brautarvarsla hefur vakið verðskuldaða athygli
Hildur segir keppnina ekki vera með stóra styrktaraðila bak við sig og hafi því ekki náðst að auglýsa hana mikið.
„Við höfum fengið topp hjólreiðafólk í keppnina sem kemur aftur og aftur og með félaga sína með sér og það er okkar besta auglýsing.
Við höfum lagt upp úr öflugri brautarvörslu og höfum uppskorið mikið hrós og eftirtekt fyrir. Það er einnig ómetanlegt hve margir sjálfboðaliðar eru tilbúnir til þess að vinna með okkur.
Hinir ýmsu þjónustuaðilar á Héraði hafa líka verið duglegir að styðja við bakið á okkur með því að gefa verðlaun og keppendur koma því gjarnan aftur austur til að nýta sér gjafabréf í gistningu og kvöldverð sem hafa leynst í verðlaunakörfunum.
Nánari upplýsingar og skráningar eru á vefsíðunni www.visitegilsstadir.is