Treyja til minningar um Kristján Orra hengd upp í íþróttahúsinu á Egilsstöðum

Treyja var hengd upp til minningar um Kristján Orra Magnússon, stuðningsmann og fyrrum leikmann Hattar, sem lést af slysförum í sumar áður en leikur liðsins gegn Stjörnunni í úrvalsdeild karla í körfuknattleik hófst í gærkvöldi.

Kristján Orri var einn þeirra þriggja sem voru um borð í flugvélinni TF-KLO sem fórst við Sauðahnjúka í júlí.

Kristján Orri lék upp í gegnum yngri flokka Hattar og síðar með meistaraflokki frá 2004-6. Í minningarorðum, sem flutt voru í gærkvöldi, var komið inn á að hann hefði verið öflugur í félagsstarfi og harður stuðningsmaður á útileikjum, einkum í Garðabæ þar sem hann bjó eftir að hann flutti suður.

Stór treyja með númerinu 12 verður hengd upp í íþróttahúsinu á Egilsstöðum sem minning og þakklætisvottur. Klappað var í mínútu honum til heiðurs og síðan spilað stuðningsmannalag Hattar „Áfram Höttur, skjóta, skora“ sem hann hélt mikið upp á.

Fyrir í húsinu er treyja með númerinu 18 til minningar um Pétur Þorvarðarson Kjerúlf. Hann lést árið 2006 eftir að hafa orðið úti á Fjöllum.

Höttur hafði annars yfirburði í leiknum gegn Stjörnunni, leiddi hann frá fyrstu mínútu og vann að lokum 89-72.

Mynd: Daníel Cekic


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar