Þrír íslandsmeistaratitlar í þrístökki:„Við erum samkeppnishæf og gott betur“
Keppendur UÍA komu heim með þrjá íslandsmeistaratitla í þrístökki í farteskinu af Meistaramóti Íslands í frjálsun íþróttum í flokki 15-22 ára sem fram fór í Reykjavík í febrúar.
Alls fóru fjórir keppendur á mótið sem er íslandsmót innanhúss fyrir þennan aldur og náðu þeir allir frábærum árangri í fleiri en einni grein.
Helga Jóna Svansdóttir varð íslandsmeistari 18-19 ára stúlkna í þrístökki, en hún varð einnig í fjórða sæti í 60 m hlaupi og í sjöunda sæti í 60 m grindahlaupi. Helga bætti sinn persónulega árangur í 60 m hlaupi.
Mikael Máni Freysson varð íslandsmeistari 18-19 ára pilta í þrístökki og varð í öðru sæti í hástökki. Hann hafnaði einnig í fjórða sæti í langstökki og níunda sæti í 200 m hlaupi þar sem hann bætti einnig sinn persónulega árangur.
Daði Þór Jóhannsson varð íslandsmeistari í þrístökki 16-17 ára pilta og bætti sinn persónulega árangur í bæði 60 m og 200 m hlaupi sem og í þrístökki.
Steingrímur Örn Þorsteinsson varð í fjórða sæti í þrístökki 16-17 ára pilta og bætti sinn persónulega árangur í 60 m hlaupi.
Góður árangur í þrístökki hefur komið á óvart
Lovísa Hreinsdóttir þjálfari frjálsíþróttadeildar Hattar.er spurð að því hvað skýri þennan frábæra árangur í þrístökkinu.
„Ég hreinlega veit það ekki, það er engin sérstök vakning þar frekar en í öðrum greinum, en hún er vissulega skemmtileg og gaman að æfa hana.
Góður árangur okkar í þrístökki á landsvísu hefur komið á óvart þar sem við höfum ekki beint aðstæður til að æfa það mikið innanhús, en við gerum það besta úr því sem við höfum og æfum mikið allskona hopp og hlaup sem skipta miklu máli fyrir greinina.“
Keppnistímabilinu innanhúss er nú lokið og segir Lovísa æfingatímabilið fyrir sumarið vera að hefjast af krafti.
„Með þessum frábæra árangri á þessu móti og í vetur sýnum við stóru liðunum hvað í okkur býr. Það er mikilvægt fyrir okkar iðkendur að fá sönnun þess að við erum samkeppnishæf og gott getur en það, við þá sem til dæmis hafa tækifæri til að æfa á gaddaskóm og stokkið í sandgryfur allt árið um kring.“