Þrír ungir blakarar hlutu afreksstyrki

Þrír ungir íþróttamenn úr Þrótti Neskaupstað hlutu styrki úr Afrekssjóði Guðmundar Bjarnasonar á dögunum, en þetta er í fyrsta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum.



Sjóðurinn var stofnaður í minningu Guðmundar Bjarnasonar á síðasta ári og er tilgangur hans að styrkja einstaklinga innan Þróttar sem náð hafa framúrskarandi árangri í íþrótt sinni.

Þrír íþróttamenn sóttu um styrk úr sjóðnum fyrir fyrstu úthlutun, en til þess að geta það verður viðkomandi að hafa öðlast rétt til keppni á fjölþjóðlegum mótum, verið valinn í landslið, unnið Íslandsmeistaratitil, sett Íslandsmet eða skarað fram úr með eftirtektarverðum hætti.

Styrkþegarnir eru þau María Rún Karlsdóttir, Særún Birta Eiríksdóttir og Þórarinn Örn Jónsson. Leggja þau öll stund á blak og hafa náð mjög góðum árangri í íþróttinni – Maria Rún hefur leikið með A-landsliði Íslands að undanförnu en þau Særún Birta og Þórarinn með unglingalandsliðum.

Næst verður úthlutað seint á þessu ári.

Frá vinstri: María Rún Karlsdóttir, Særún Birta Eiríksdóttir og Þórarinn Örn Jónsson. Ljósm. Smári Geirsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar