Tvær frá Þrótti fengið gull með íslensku landsliðunum
Tveir leikmenn Þróttar Neskaupstaðar hafa að undanförnu komið heim með gullverðlaun úr verkefnum með íslenska landsliðinu.Randíður Anna Vigfúsdóttir var í U-17 ára landsliði kvenna sem um helgina vann NEVZA Norðurlandamótið, en leikið var í Ikast í Danmörku. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenska liðið vinnur slíkt mót.
Mótherjarnir í úrslitaleiknum voru Danir en íslenski sigurinn var nokkuð öruggur, 3-0 eða 25-20, 25-14 og 25-19 í hrinum.
Í byrjun september náði U-19 ára liðið einnig sínum fyrstu gullverðlaunum í móti smáþjóða sem leikið var á Laugarvatni. Auk Íslands léku þar Færeyjar, Gíbraltar og Malta.
Ester Rún Jónsdóttir var í íslenska liðinu sem vann Færeyinga í oddahrinu í úrslitum. Hrinurnar, í leiknum sem 2 tíma og 20 mínútur fóru 26-24, 17-25, 25-20, 18-25 og loks 15-10.
Jakob Kristjánsson var í íslenska U-17 ára drengjaliðinu sem tapaði fyrir Færeyingum í leik um þriðja sætið á mótinu í Ikast um helgina.
Randíður fjórða frá vinstri eða í treyju númer fjögur. Mynd: Blaksamband Íslands