Tveir Austfirðingar á EM í fimleikum
Tveir Austfirðingar eru í landsliðum Íslands sem í morgun hófu keppni á Evrópumótinu í hópfimleikum sem haldið er í Maribor í Slóveníu.
Kristinn Már Hjaltason er í U-18 ára blönduðu liði en það tryggði sér í dag sæti í úrslitum sem fram fara á föstudag. Liðið varð í þriðja sæti forkeppninnar á eftir Dönum og Norðmönnum en á undan Svíum.
Kristinn æfir með Hetti en keppir með Stjörnunni þar sem ekki er til staðar eystra drengjalið í hans aldursflokki.
Þá er Valdís Ellen Kristjánsdóttir í blandaða A-landsliðinu. Valdís Ellen er uppalin hjá Hetti en hefur æft og keppt með Stjörnunni síðustu ár.