Tveir Íslandsmeistaratitlar og mótsmet

Sjö keppendur frá UÍA tóku þátt í Meistaramóti Íslands 11-14 ára sem fram fór á Sauðárkróki fyrir rúmri viku. Héraðsbúinn Björg Gunnlaugsdóttir varð tvöfaldur Íslandsmeistari og setti mótsmet.

Keppendurnir sjö komu alllir frá frjálsíþróttadeild Hattar. Sem fyrr segir var það Björg Gunnlaugsdóttir sem fór fremst í flokki þeirra og vann sigur í bæði 100 metra hlaupi og 600 metra hlaupi í flokki 14 ára stúlkna. Í 600 metrunum hljóp hún á nýju mótsmeti, 1 mínútu 44,23 sekúndum, en alls voru þrjú mótsmet sett á Króknum þessa helgi og voru þau öll í 600 metra hlaupi. Björg var einnig hársbreidd frá þriðja Íslandsmeistaratitlinum en varð að sætta sig við silfurverðlaun í langstökki þar sem aðeins munaði 1 cm á fyrsta og öðru sæti.

Frjálsar íþróttir eru ekki eina greinin sem Björg leggur stund á, en nokkra athygli vakti þegar hún kom inn á í fyrsta leik Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis í 2. deild kvenna í knattspyrnu í ár, þá ekki enn orðin 14 ára gömul.

Auk Bjargar komust þeir Steinar Aðalsteinsson og Gabríel Glói Freysson einnig á verðlaunapall á mótinu. Steinar hreppti silfurverðlaun í hástökki í flokki 13 ára pilta en Gabríel Glói vann til bronsverðlauna í 600 metra hlaupi 11 ára pilta. Aðrir keppendur stóðu sig einnig vel og komust margir í úrslit í sínum greinum.

 

Björg var sátt með verðlaunauppskeruna. Mynd: Aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar