Tveir knattspyrnudómarar í efstu deild

Austurland hefur á síðustu misserum í fyrsta sinn eignast knattspyrnudómara sem búa á svæðinu með réttindi til að dæma í efstu deild karla. Þeir fara á nýju ári í sérstakar þjálfunarbúðir hjá Knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA) fyrir efnilega dómara.

Antoníus Bjarki Halldórsson dæmdi sinn fyrsta leik sem aðstoðardómari þegar KR tók á móti Keflavík um miðjan júlí í fyrra. „Einn félagi minn, Ásmundur Hrafn, var byrjaður í þessu og fékk mig með sér og þannig byrjaði sá ferill með leikjum í þriðja til sjötta flokki. Allar götur síðar verið mjög skemmtilegt aukastarf sem ég ætla mér að halda áfram með,” rifjar hann upp.

Guðgeir Einarsson var aðaldómari þegar Valur tók á móti Stjörnunni um miðjan október. „Það er 2012 sem ég er með fyrsta leikinn minn skráðan. Þá vantaði fólk á línuna í einhverjum leikjum þriðja og fjórða flokks. Árni Ólason hringdi í mig og vélaði mig til verks og þetta fyrsta skipti fannst mér mér skemmtilegt.”

Meðal efnilegustu dómara Evrópu

Aðildarsamböndum UEFA býðst árlega að senda sína efnilegustu dómara á svokallað CORE-námskeið sem haldið er í Nyon í Sviss, þar sem sambandið er með höfuðstöðvar. Innan við 40 dómarateymi frá Evrópu eru valin til þáttöku í hvert skipti. Eftir áramót verða Guðgeir og Antoníus fulltrúar Íslands.

„Vissulega er þetta mikill heiður en við erum svo sem ekki að fara mikið að taka leiki erlendis í kjölfarið held ég. Þetta er meira bara bónus en maður veit auðvitað aldrei hvað verður,” segir Guðgeir.

Ekki er um frí eða skemmtiferð að ræða heldur stífa þjálfun. Námskeiðið er tvískipt. Fyrsti hlutinn snýr að mestu að bóklegri og tæknilegri kennslu en síðari hlutinn gengur að mestu út á líkamlega þáttinn og þar á meðal þarf að undirgangast þolpróf.

„Það eru framfarir í dómgæslu eins og í leiknum sjálfum. Við lærum hvernig skal ráða leiknum og koma í veg fyrir að hann flosni upp í einhverja vitleysu, hvernig bregðast skuli við alvarlegum brotum og þegar leikmönnum er sérstaklega uppsigað við dómarana. Staðsetning dómara er líka mikilvæg á hverju stigi í leiknum. Mikið af þessu snýst líka um þrekþjálfun,” bætir Guðgeir við.

Antoníus tekur undir það: „Þetta er jákvætt skref því við viljum öll að ekki halli á einn aðila eða annan í leikjum. Varsjá er eitt tæki til þess að koma í veg fyrir það.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.