Tveir leikir flautaðir af í gærkvöldi
Tveir knattspyrnuleikir voru flautaðir af á Austfjörðum í gærkvöldi vegna veðurs.
Á Eskifirði voru búnar 25 mínútur af leik Fjarðabyggðar og Fjölnis í 1. deild karla þegar dómarinn, Þórður Már Gylfason, flautaði hann af því leikmenn gátu vart sent boltann á milli sín. Á vellinum voru stórir pollar sem boltinn stöðvaðist í og aðeins hægt að taka hornspyrnur í einu horni.
Leikurinn á að fara fram klukkan 16:00 í dag. Verði Eskifjarðarvöllur ekki orðinn sæmilega þurr verður leikið í Fjarðabyggðarhöllinni.
Sömu sögu er að segja af Seyðisfirði þar sem leikur Hugins og Magna í þriðju deild var flautaður af í leikhléi. Staðan var þá 1-1. Leikmenn áttu erfitt með að fóta sig á vellinum, hvað þá að reikna út stefnu boltans. Nýr leikdagur hefur ekki verið ákveðinn.
Á Vopnafirði var leikfært en þar vann Leiknir Einherja 1-4. Almar Daði Jónsson og Vilberg Marinó Jónasson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Leikni.