Tveir Norðfirðingar blakfólk ársins

Ragnar Ingi Axelsson og Jón Guðlaug Vigfúsdóttir, sem bæði eru alin upp hjá Þrótti Neskaupstað, hafa verið valin blakmaður og blakkona ársins 2021.

Ragnar Ingi hefur ekki áður fengið þessa viðurkenningu. Eftir að hafa alist upp hjá Þrótti skipti hann árið 2020 yfir í Hamar og var lykilmaður í liðinu þegar það varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari í vor. Hann var einnig valinn í lið ársins.

„Ragnar Ingi leikur í stöðu frelsingja og hefur verið einn besti varnarmaður úrvalsdeildarinnar á liðnum árum. Hann er með bestu tölfræðina í sinni stöðu það sem af er þessu tímabili og var á dögunum valinn í úrvalslið úrvalsdeildarinnar eftir fyrri hluta tímabilsins. Ragnar og lið hans Hamar, hafa ekki enn tapað leik á árinu 2021 og eru ósigraðir í 32 keppnisleikjum í röð,“ segir í umsögn Blaksambandsins.

Ragnar Ingi er leikmaður A landsliðsins og á að baki 15 leiki og hefur einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.

Valin í sjötta sinn

Jóna Guðlaug hlýtur nafnbótina annað árið í röð og sjötta skiptið alls, en hún var fyrst valin árið 2005. Hún er atvinnumaður hjá Hylte/Halmstad í Svíþjóð og var fyrirliði liðsins sem vann alla þá titla sem í boði voru í Svíþjóð í vor. Hún var einnig valin í lið tímabilsins þar.

Líkt og hjá Ragnari er lið Jónu ósigraði og í efsta sæti það sem af er þessari leiktíð. Jóna á að baki 84 A-landsleiki og er fyrirliði landsins. Til stóð að það léki í Novotel-bikarnum í Lúxemborg milli jóla og nýárs, en mótinu var frestað með minna en viku fyrirvara vegna hertra sóttvarnaráðstafana í Lúxemborg.

Nokkrir Þróttarar voru hins vegar í U-17 ára landsliðið stúlkna og U-18 drengja sem lék í forkeppni Evrópumótsins í Danmörku. Bæði liðin töpuðu öllum sínum leikjum og lentu í sjötta og síðasta sæti.

Tvær frá Þrótti í úrvalsliði

Í vikunni var einnig dregið í átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Þróttur mætir HK bæði hjá körlum og konum, kvennaliðið fékk heimaleik en karlaliðið útileik. Leikið verður um miðjan mars.

Þá var einnig valið úrvalslið fyrri hluta tímabilsins í efstu deild. Enginn núverandi leikmaður Þróttar er í karlaliðinu en Ragnar Ingi kemst að sjálfsögðu í það.

Þróttur er sterkari í úrvalsliði kvenna. Paula Miguela de Blaz og Maria Jimenez eru valdar í liðið og María Rún Karlsdóttir og Valdís Kapitola Þorvarðardóttir, sem báðar eru aldar upp í Neskaupstað einnig. Þá er Gonzalo Garcia þjálfari liðsins.

Jóna Guðlaug fagnar sænska meistaratitlinum með Hylte/Halmstad. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.