UÍA, ME og Höttur mynda afrekshóp í fimleikum

uia_afrekshopur_fimleikar_samningur_0006_web.jpg
Fimleikadeild Hattar, Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands og Menntaskólinn Egilsstöðum skrifuðu á laugardag undir samstarfssamning um afrekshóp í fimleikum á Austurlandi. Markmiðið með hópnum er að styðja við þá sem vilja ná lengra í íþróttinni en jafnframt búa lengur í heimabyggð.

Afrekshópurinn samanstendur af tíu stúlkum á aldrinum 15-20 ára. Stúlkurnar hafa æft fimleika frá 6 ára aldri og náð langt í greininni.

„Það er von okkar með þessum afrekshópi að við komum til móts við iðkendur sem þurfa betri aðstöðu til æfinga og styðja við iðkendur sem stunda fimleika af mikilli samviskusemi. 

Við ætlum að halda þátttakendum lengur í  heimabyggð og um leið styðja við þær menntastofnanir og íþróttastarf sem eru hér á svæðinu með aukinni fræðslu og verkefnum sem hentar hverjum og einum,“ segir Auður Vala Gunnarsdóttir, yfirþjálfari.

„Markmiðið með afrekshópinn er að halda ungmennunum okkar lengur heima í héraði. Aðstaða til fimleikaiðkunar fyrir iðkendur sem hafa náð langt í íþróttinni er ekki til staðar og því mun hluti hópsins fara til fimleikadeildar Stjörnunnar í Garðabæ, tvisvar sinnum á haustönn og þrisvar sinnum á vorönn 2013.“

Hildur Bergsdóttir, framkvæmdastjóri UÍA, segir fimleikahópinn styðja við það afreksstarf sem þegar er í gangi hjá sambandinu. 

„Við erum með afrekshópa í sundi og frjálsíþróttum og við sjáum fyrir okkur að geta samnýtt fræðslu fyrir hópana. Við fögnum því frumkvæði sem fimleikadeild Hattar sýndi með að leita til okkar. 

Við höfum lýst því yfir að við viljum styðja við efnileg verkefni á svæðinu og þetta er sannarlega eitt af þeim. Við sjáum einnig fyrir okkur að hópurinn nýtist til að breiða fimleikaíþróttina út á Austurlandi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.