UÍA stigameistari í frjálsum
Lið UÍA varð stigameistari í flokki 13 ára pilta á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum 11-14 ára innanhúss sem fram fór í Laugardalshöll um síðustu helgi. Vel gekk hjá keppendum UÍA sem voru fjórtán talsins.
Steingrímur Örn Þorteinsson, 13 ára úr Hetti, fór mikinn á sínu fyrsta Meistaramóti og sigraði hvoru tveggja í 60 m spretthlaupi og langstökki. Jafnaldri hans úr Val, Henrý Elís Gunnlaugsson sem einnig var á sínu fyrsta Meistaramóti, vann öruggan sigur í 800 metra hlaupi.
Báðir voru í sigursveit UÍA í 4x200 metra boðhlaupi ásamt Atla Fannari Péturssyni, Þrótti og Daða Þór Jóhannssyni, Leikni. Daði varð að auki í þriðja sæti í langstökki.
Halla Helgadóttir skilaði sér langfyrst í mark í 800 m hlaupi 12 ára stúlkna og sigraði einnig með yfirburðum í hástökki og varð þriðja í langstökki í sama flokki. Brynhildur Brá Gunnlaugsdóttir hlaut bronsverðlaun í langstökki 13 ára stúlkna. Báðar eru úr Hetti.
Aðrir keppendur UÍA stóðu sig einnig með miklum sóma, bættu sig eða komust í úrslit.