UÍA býður Austfirðingum á Landsmót 50+

Stjórn Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands hefur ákveðið að fella niður skráningargjöld fyrir þátttakendur af sambandssvæðinu á Landsmót UMFÍ 50 ára og eldri sem haldið verður í Neskaupstað 28. – 30. júní næstkomandi. Undirbúningi mótsins miðar vel.



„Við viljum hvetja Austfirðinga til að nýta sér þetta frábæra tækifæri til hreyfingar. Þetta snýst ekki um keppni heldur að hreyfa sig í góðum félagsskap og hafa gaman,“ segir Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri UÍA.

Ákvörðunin er meðal annars tekin í ljósi þess að skráning á mótið frá Austurlandi hefur verið afar dræm en þetta er í fyrsta skipti sem Landsmót 50+ er haldið á Austurlandi. Þeir sem þegar hafa skráð sig undir merkjum UÍA verður endurgreitt þátttökugjaldið. Þá var einnig ákveðið að framlengja skráningarfrest á mótið út þriðjudaginn 25. júní. 

„Það eru auðvitað vonbrigði hve treglega skráningin hér eystra hefur gengið. Við getum ekki látið það spyrjast út um okkur að við mætum ekki á mótið þegar það er haldið í okkar eigin bakgarði. Ég trúi ekki öðru en Austfirðingar fjölmenni og haldi þetta mót með stakri prýði og taki vel á móti gestum víðs vegar af landinu.

Við höfum heyrt í samtölum okkar við fólk eystra að það er hikandi því það þekki ekki mótin. Skráning víða annars staðar hefur gengið ágætlega, einkum frá þeim stöðum sem hafa haldið mótin áður. Við viljum því nota þetta tækifæri til að Austfirðingar kynnist mótunum. Við erum í þessari stöðu meðal annars því við höfum öfluga bakhjarla sem koma myndarlega að mótinu,“ segir Gunnar.

Það er pláss fyrir alla
Þótt mótið sé ætlað fólki sem er komið yfir fimmtugt er þar einnig að finna greinar sem opnar eru fyrir alla aldurshópa svo sem pílukast, lomber, frisbígolf, strandblak og garðahlaup.

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri landsmóta UMFI, segir að mótin hafi breyst frá því sem áður var, þegar þau snérust um harða keppni um gullið.

„Í dag eru landsmótin fyrir alla og snúast meira um að taka þátt á eigin forsendum og njóta þess að hitta annað fólk, þó vissulega séu gullverðlaun enn í boði. Það er pláss fyrir alla og það er bara skemmtun að taka til dæmis þátt í pönnukökubakstri, lomber og fleiri greinum,“ segir Ómar Bragi.

Undirbúningi miðar vel
Undirbúningi mótsins miðar annars vel. Meðal annars hefur verið ráðist í gerð frjálsíþróttaaðstöðu, gryfju fyrir langstökk og kastsvæða fyrir mótið. Erfiðast er að stjórna veðrinu en nýjustu langtímaspár benda til þess að þar horfi til betri vegar í næstu viku en verið hefur það sem af er mánuðinum.


„Við erum á mjög góðum stað í undirbúningnum. Mér þykir það frábært hjá UIA að fella niður mótsgjöldin fyrir sitt fólk og bjóða þar með öllum á Austurlandi á mótið. Ég vona svo sannarlega að það skili sér í því að fólk mæti og taki þátt í einni og einni grein.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar