Ungmennafélagsandinn svífur yfir vötnum

„Við verðum með tíu keppendur á unglingalandsmótinu um helgina. Þeim fylgja að sjálfsögðu aðstandendur þannig að ætla má að hér á Sauðárkróki verði um 30 manns tengdir okkar klúbbi um helgina,“ segir Hörður Kristjánsson, stjórnarmaður í akstursíþróttafélaginu START.

„START er akstursíþróttafélag Fljótsdalshéraðs hins forna, nú Múlaþings. Síðastliðin fimm ár höfum við haldið úti vikulegum æfingum fyrir börn og ungmenni yfir sumartímann sem þeir bræður Hjálmar og Björgvin Jónssynir stýra svo vel. Starfið hefur skilað sér hratt og vorum við til að mynda með sýningu á sumarhátíð UIA þar sem 18 iðkendur á aldrinum 5-11 ára tóku þátt,“ segir Hörður.

Unglingalandsmót UMFÍ hefst á Sauðárkróki í dag. „Venjulega hefur verið keppt í krakkacrossi á unglingalandsmótinu en við félagarnir í klúbbnum fréttum að ekki væri stefnt á keppni í greininni í ár. Við tókum okkur því til og höfðum samband við Vélhjólaklúbb Skagafjarðar á á Sauðárkróki til þess að kynda aðeins undir þeim og úr varð að keppt verður á morgun,“ segir Hörður, sem segir sannan ungmennafélagsanda svífa yfir vötnum um helgina. „Við komum að austan og munum aðstoða við mótshaldið, auk þess sem við fáum liðsstyrk frá Akureyri og nærsveitum, til þess að gera þetta að veruleika.“


Yngsti iðkandinn rúmlega fjögurra ára


Aðspurður um hættu á meiðslum í íþróttinni segir Hörður að það sé spurning sem hann heyri oft. „Þegar menn heyra orðið mótorkross kemur líklega fyrst upp í hugann mynd af amerísku súpercrossi þar sem keppendur stökkva eina 40-50 metra. Yngsti iðkandinn okkar er aðeins rúmlega fjögurra ára og við byrjum að sjálfsögðu á því að kenna öll undirstöðu atriðin en um fram allt að skapa ánægjulegan félagsskap í skemmtilegu sporti. Starfið okkar byggir fyrst og fremst á því að ánægjulegt sé að keyra mótorhjól, en það er alveg jafn gaman hjá barni sem fer einn hring og því sem fer tvo á sama tíma. Það er ekki fyrr en krakkarnir eru orðin 10-11 ára sem við sjáum hverjir það eru sem munu halda áfram og þá hugsanlega fara á afreksstig. Hvað varðar meiðsli þá frétti ég nú bara áðan af barni sem fór að keppa í körfubolta klukkan níu í morgun og kom heim klukkutíma síðar með snúinn ökkla, þannig að meiðslin og slysin gerast í öllum íþróttum.“


Vinatengsl verða til þvert á aldur og getu


Hörður segir mikinn ávinning í því fyrir krakka að stunda mótorsport. „Þau læra samhæfingu hugar og líkama sem er góður grunnur fyrir allar aðrar íþróttir. Þá má segja að sportið sé góð lífsleikni þar sem krakkarnir mynda vinatengsl þvert á aldur og getu.“

Hörður segir að sýningar og keppnir séu kynntar fyrir iðkendum sem góðar æfingar fyrir framtíðar keppnishald. „Við líkjum eftir alvöru keppnisferli þar sem við förum með hjólin gegnum öryggisskoðun og höldum fund með keppendum og svo framvegis. Þannig fá krakkarnir innsýn í það um hvað þetta snýst allt saman. Þau eru almennt svo áhugasöm og spennt að um leið og slíkur viðburður klárast eru þau farin að spyrja hvenær sá næsti verður. Mótshald er einnig svo gríðarlega þroskandi fyrir þessa krakka, en oftar en ekki eru þau að hitta iðkendur alls staðar að af landinu þannig að félagslegi grunnurinn og tengslanetið stækkar hratt.“

Ljósmynd: Benedikta Antonía Eysteinsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.