Unnu C-deildina án þess að tapa leik
Lið Austurlands í þriðja flokki karla leikur á sunnudag í undanúrslitum Íslandsmóts þriðja flokks karla í knattspyrnu. Liðið vann í sumar C-deild mótsins og fór í gegnum hana án þess að tapa leik.„Þetta er virkilega flott lið sem við eigum og út frá því kvíði ég ekki framtíð fótboltans hér eystra. 2004 árgangurinn er sérstaklega sterkur og það verður forvitnilegt að sjá hvar þeir standa eftir 2-3 ár,“ segir Vilberg Marinó Jónasson sem þjálfar liðið ásamt Ljubisa Radovanovic.
Liðið Austurland er samstarf félaganna frá Vopnafirði suður að Breiðdalsvík en kjarni liðsins er úr Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði. Leikmenn þess æfa saman einu sinni í viku en annars eru þeir með sínum liðum.
„Við höfum eiginlega aldrei náð að stilla upp okkar sterkasta liði því í eiginlega öllum leikjum hafa einhverjir verið í verkefnum með meistaraflokki. Það er samt ánægjulegt að sjá hve margir hafa fengið tækifæri þar.
Strákarnir eiga þetta skilið og kannski sýnir þetta, ef maður horfir fram á veginn, að ýmislegt er hægt með samvinnu. Í ljósi þess hvernig meistaraflokkunum hefur gengið í sumar er þetta ljósið í myrkrinu og kannski í lagi að horfa á sameiningu úr því sem komið er,“ segir Vilberg Marinó.
Austurlandsliðið spilaði í sumar í A-riðli C deildar. Af 14 leikjum vann liðið 12 leiki, gerði 2 jafntefli og endaði með markatöluna 68-17, flest mörk skoruð og fæst mörk fengin á sig í deildinni. Um síðustu helgi spilaði liðið í úrslitakeppni deildarinnar, vann þar Fjölni 2 í undanúrslitum og Aftureldingu í úrslitum.
Næsta verkefni eru úrslit Íslandsmóts þriðja flokks, þar sem leikið verður gegn bestu liðunum úr A og B deild. Austurland mætir á sunnudag liði Breiðabliks sem vann A-deildina í sumar. Sigurvegarinn kemst í úrslitaleik mótsins sem verður eftir viku. „Ef menn vilja þarf að keppa við góð lið. Þetta verður brekka en það er gaman að fara upp brekkur. Við förum óhræddir í þetta verkefni.“