Úr knattspyrnu í pílukast

Vopnfirðingurinn Dilyan Kolev tryggði sér nýverið keppnisrétt í íslensku úrvalsdeildinni í pílukasti næsta haust. Frami Kolevs í pílunni hefur verið skjótur en hann byrjaði að stunda íþróttina í Covid-faraldrinum. Hann segir góðan grunn úr íþróttum nýtast í pílunni en hann hefur spilað fótbolta með Einherja frá 2015.

„Mér finnst gaman að keppa í íþróttum. Ég var farinn að færa mig yfir í maraþonhlaup fyrir Covid en þá var lítið hægt að gera þannig ég keypti mér píluspjald. Fyrst var ég bara heima að kasta en síðan skráði ég mig á mót á Akureyri í janúar 2022 og vann þar bronsdeildina,“ segir Kolev.

Hann hefur síðan haldið áfram og í apríl vann hann gulldeildina sem tryggir honum rétt í úrvalsdeildinni næsta haust. Hún fer af stað í lok ágúst og verður sýnd í sjónvarpi.

Kolev kveðst hafa sett meiri alvöru í píluna í ár og að það hafi skilað árangri. Í byrjun árs komst hann í útsláttarkeppni Reykjavíkurleikanna. Í maí keppti hann á Íslandsmótinu. Hann vann þrjá leiki í riðlakeppninni, þar með talið gegn Matthíasi Erni Friðrikssyni, sem Kolev lýsir sem besta pílukastara landsins, en það dugði þó ekki til að komast í útsláttinn.

Útbúa aðstöðu fyrir Vopnfirðinga


Kolev hefur að undanförnu unnið að því að byggja upp píluaðstöðu á Vopnafirði og notið við það aðstoðar formanns Einherja, Víglunds Páls Einarssonar. Nýverið samþykkti útgerðarfélagið Brim að leggja til sal. „Þetta er ekki bara fyrir mig heldur til að styrkja félagslífið á Vopnafirði, sérstaklega á veturna. Þá er gaman að hittast og kasta pílum.“

Aðstaðan er skref í að jafna aðstöðumuninn en fjarlægðin mun alltaf skipta máli. „Mig vantar meiri reynslu, ég næ bara 5-6 mótum á ári. Pílukastarar úr Reykjavík og Grindavík, Grindavík er með bestu deildina, eru alltaf að keppa. Það kostar mig 60 þúsund að fara á eitt mót í Reykjavík á meðan það kostar þá ekki neitt. Nú eru fyrirtæki hér á Vopnafirði að byrja að styrkja mig og það er mikils virði.“

Kolev í keppni við Matthías Örn Friðriksson, Íslandsmeistara 2020, 2021 og 2022, í maí. Mynd: Aðsend

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar