Urriðavatnssund: Kalt þegar maður kom fyrst ofan í

Ingunn Eir Andrésdóttir frá Eskifirði kom fyrst í mark í hálfu Urriðavatnssundi sem synt var í áttunda sinn á laugardag. Aðstæður í sundinu hafa trúlega aldrei verið erfiðari.


Vindurinn var austanstæður, 10 m/s á laugardagsmorgun, í raun eftir endilöngu vatninu á móti keppendum á fyrri hluta leiðar þeirra sem þýddi að öldugangur var töluverður.

Fullt sund er vanalega 2,5 km en var stytt í 1,5 km vegna aðstæðna. Yfir 90 keppendur luku þó sundinu.

Ingunn Eir Andrésdóttir, sundþjálfari frá Eskifirði, er vanari að synda í sundlaugum og skráði sig því í hálft sund í sínu fyrsta Urriðavatnssundi.

„Ég var eiginlega við það að hætta við þegar ég sá veðrið í morgun og eins þegar ég var komin hingað. Þegar ég fór ofan í gekk sundið hins vegar betur en ég þorði að vona,“ segir Ingunn sem synti stutta sundið á 13,48 mínútum.

„Það var kalt þegar maður fór fyrst ofan í en svo lagaðist það. Aldan var auðveldari viðureignar en ég óttaðist, það fór svolítið vatn upp í mann en það var allt í lagi. Ég hefði alveg viljað fara í lengra sundið.

Gleraugun voru stærsta vandamálið. Það var móða á þeim þannig ég sá ekki neitt og var aðeins að villast. Ég þarf klárlega betri gleraugu áður en ég syndi næst í svona vatni.“

Frekari úrslit Urriðavatnssundsins má finna hér.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar