Úrslitaleikur um vonina framundan
Höttur og Haukar eru áfram í fallsætum úrvalsdeildar karla í körfuknattleik eftir leiki gærkvöldsins. Liðin mætast innbyrðis í næstu umferð, þeirri næst síðustu.Höttur tapaði í gærkvöldi 85-100 fyrir Þór Þorlákshöfn á Egilsstöðum. Úrslitin í leiknum réðust nánast í öðrum leikhluta þar sem flest allt gekk upp hjá gestunum en ekkert hjá heimamönnum. Þórsarar unnu leikhlutann 33-15 og voru 32-51 yfir í hálfleik.
Höttur átti frábæran annan leikhluta og náði að minnka muninn niður í sex stig, 74-80, áður en síðasti leikhlutinn hófst. Höttur var enn inni í leiknum um miðbik hans þegar miðherjinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson fór út af með sína fimmtu villu. Eftir það fjaraði aftur undan leik Hattar.
Leikurinn í gærkvöldi var með þeim hraðari sem sést hafa á Egilsstöðum í vetur enda leggur Þórsliðið leiki sína þannig upp. Bæði lið gerðu hins vegar fjölda mistaka, Þór tapaði boltanum 24 sinnum en Höttur 18 sinnum. Einkum var þetta í fyrsta leikhlutanum þegar Þór tapaði níu boltum og Höttur sjö. Þá var þriggja stiga nýtingin einnig í lágmarki en hún lagaðist þegar á leið.
„Við þurfum að byggja á þriðja leikhlutanum. Við getum verið þetta góðir og þurfum á því að halda í næsta leik,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn.
Höttur er sem fyrr í fallsæti með 12 stig, líkt og Haukar sem töpuðu fyrir Val. Liðin mætast í Hafnarfirði á fimmtudagskvöld. Njarðvík er næst fyrir ofan með tveimur stigum meira. Leikurinn á fimmtudag er því svo að segja hreinn úrslitaleikur um möguleikann á að halda úrvalsdeildarsætinu.
Fallbarátta deildarinnar er óvenju spennandi í ár. Ekki bara er sjaldgæft að lið með 12 stig sé í fallhættu heldur líka hversu mörg lið eru á fallsvæðinu þótt ÍR kæmi sér úr mestu hættunni, upp í 16 stig við hlið Þórs Akureyri, með sigri á Stjörnunni í gær.
Tímabilið 2016-17 féll Skallagrímur með 14 stig í 11. sæti. Veturinn 2012-13 féll Fjölnir sem neðsta lið með 10 stig. Þar fyrir ofan voru Tindastóll, KFÍ og ÍR með 12 stig en Tindastóll féll á innbyrðisviðureignum. Þetta eru þó undantekningin, nokkrum sinnum hafa bæði fallliðin verið með minna en tíu stig. Versti árangurinn var þó 2016-17 þegar Snæfell fékk ekki stig.
Úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í blaki hefst í kvöld. Þróttur heimsækir HK í Kópavogi.
Mynd: Körfuknattleiksdeild Hattar