Var nærri hættur þegar tilboðið frá Hetti kom
Adam Eiður Ásgeirsson, fyrirliði körfuknattleiksliðs Hattar, átti frábært tímabil í vetur þar sem liðið komst í fyrsta sinn í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Það er þó ekki sjálfsagt að hann sé á þessum stað í dag, þegar tilboð barst frá Hetti sumarið 2021 var hann kominn á fremsta hlunn með að hætta í körfuboltanum þar sem hann komst ekki áfram hjá uppeldisfélagi sínu Njarðvík.„Ég var 23ja ára gamall þegar kom í Hött. Ég hafði aldrei náð að brjótast inn í Njarðvíkurliðið og fá mínútur eða hlutverk. Njarðvík er sögufrægt félag þar sem er mikil pressa á að vinna og þá eiga ungir leikmenn oft erfitt með að komast í liðið.
Ég var í raun búinn að ákveða að hætta þetta sumar en það var eitthvað sem heillaði mig við að fara austur. Sindri á Höfn hafði líka samband en ég get ekki sagt það hafi verið slegist um mig. En þegar Einar (Árni Jóhannsson) og Viðar (Örn Hafsteinsson, þjálfarar Hattar) höfðu samband þá sló ég til.“
Adam segist ekki hafa hugsað mikið um að hann væri að skipta niður um deild, úr úrvalsdeild í fyrstu deildina, efst í hans huga hafi verið að fá að spila körfubolta. Hann varð strax lykilmaður í liðinu í fyrstu deildinni og átti ágætt tímabil í úrvalsdeildinni í fyrra með 8,4 stig að meðaltali í leik og 36% nýtingu úr þriggja stiga skotum. Í vetur var hann með 9,3 stig að meðaltali, 45% nýtingu úr þriggja stiga og 55% úr teignum.
„Í mínu tilfelli þá hefur það gengið frábærlega upp að fara bæði í fyrstu deildina og út á land. Ég hef vaxið og þroskast mikið sem einstaklingur. Þess vegna mæli ég hiklaust með þessu skrefi fyrir ungra leikmenn.
Heima í Njarðvík var ég gagnrýndur fyrir að vera slakur varnarlega en strax í fyrstu deildinni var ég settur í að dekka Bandaríkjamennina. Þjálfarnir hafa haft óbilandi trú á mér þessi þrjú ár sem ég hef verið hér og maður vex við að finna slíka trú frá þeim, liðsfélögunum og stúkunni.“
Margir leiðtogar í liðinu
Eftir að hafa verið hjá Hetti í einn vetur var Adam Eiður gerður að fyrirliða. „Það hefur þroskað mig enn meira. Hlutverkið setur kröfur á mig um að vera á tánum og stjórna tilfinningum mínum eins og ég get í leikjum því ég get farið út um allt á tilfinningaskalanum.
En þótt ég sé formlega fyrirliði þá eru margir leiðtogar í liðinu sem er kostur. Matej Karlovic er tilfinningalegur leiðtogi og stríðsmaður. Obie Trotter og Nemanja Knezevic leiða okkur áfram á vellinum.“
En fyrirliðinn ber líka skyldur utan vallar. Íslenska deildin er ekki atvinnumannadeild heldur þurfa leikmenn að mæta í fjáraflanir. Fyrirliðinn leiðir gjarnan hópinn í að mæta í þær. „Það er fullt af sjálfboðaliðum í kringum félagið sem vinna mikla vinnu og við leikmennirnir þurfum líka að standa okkar plikt utan vallar.“
Ánægður í íþróttakennslunni
Meðfram körfuboltanum hefur Adam Eiður starfað í Egilsstaðaskóla og var þar íþróttakennari í vetur. „Þetta er alltaf skrýtin tilfinning að vera hátt uppi eftir leiki en mæta svo bara í vinnuna daginn eftir. Það kemur manni niður á jörðina sem ég held að sé hollt. Ég get líka farið mjög lágt eftir tapleiki og ofhugsað hlutina. Ég held það hjálpi mér að þurfa að mæta í vinnu og vera innan um fólk. Það hjálpar til við að segja skilið við tapleiki og halda áfram með lífið.“
Hann segist kunna vel við sig í kennarastarfinu sem henti vel með körfuboltanum. „Í frímínútum get ég tekið aukaskot eða teygjur. En það er líka frábært að vinna í skólanum því það er góð stemming á vinnustaðnum.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.