Vestfirðingar sigursælir í Urriðavatnssundi – Myndir
Vestfirðingarnir Svavar Þór Guðmundsson og Katrín Pálsdóttir syntu hraðast í Urriðavatnssundi sem fram fór á laugardag.
Svavar kom í mark á tímanum 41:40 mín, um tveimur mínútum frá besta tíma sem náðst hefur í keppninni. Hjalti Gautur Hjaltason var annar á 42:01 og Jakob Samúel Antonsson þriðji á 46:43.
Katrín varð fyrst kvenna á 49:26 en Sigrún Hallgrímsdóttir var skammt á eftir henni á 49:43. Þriðja varð Gréta Björg Jakobsdóttir á 50:44.
Ræst var í víkinni við hitaveituskúrana og synt að bauju rétt við bæinn Urriðavatn og þaðan tilbaka, alls 2,5 km.
Eins var í boði hálf leið. Bestum árangri þar náði Guðbjörg Björnsdóttir sem synti á 37:15.
Aðstæður voru ákjósanlegar á laugardagsmorguninn, lítill vindur þannig vatnið var nokkuð kyrrt og um 16 stiga heitt. Tæplega 120 keppendur fóru í vatnið, ríflega helmingi fleiri en síðustu ár og voru þeir ræstir í tveimur hópum.