Blak: Vestri reyndist sterkari í oddahrinunni
Karlalið Þróttar tapaði sínum fyrsta leik á leiktíðinni í úrvalsdeildinni í blaki þegar Vestri frá Ísafirði kom í heimsókn á laugardag. Oddahrinu þurfti til að knýja fram úrslitin í hörkuleik.Liðin skiptust fimm sinnum á forustu í fyrstu hrinunni. Síðasta sveiflan kom eftir að Þróttur hafði verið 17-16 yfir. Þá hrökk allt í baklás og Vestri vann 20-25.
Í annarri hrinu var Vestri yfir fram að 8-11. Þróttur komst í 12-11 en Vestri jafnaði í 12-12. Þá fór Þróttur að ná undirtökunum og komst í 18-14 en Vestramenn voru ekki búnir, jöfnuðu í 18-18 og aftur í 20-20. Þá kviknaði aftur á heimamönnum og þeir unnu 25-21.
Í þriðju hrinu var Vestri aftur yfir 8-11 þegar Þróttur tók sig til og skoraði níu stig í röð og komst í 17-11. Eftirleikurinn var þá einfaldur og hrinan endaði 25-20.
Þróttur komst í 5-1 í fjórðu hrinu en Vestri svaraði með að ná fram úr, 6-7. Gestirnir juku forustuna aðeins meir en síðan varð jafnt á flestum tölum. Þróttur var yfir 17-16 en Vestri seig þá fram úr og vann 23-25.
Oddahrinan varð sú ójafnasta. Vestri skoraði fyrstu þrjú stigin, komst síðan í 2-8 og hélt því forskoti til loka, vann hrinuna 9-15 og leikinn þar með 2-3. Það þýðir hins vegar að Þróttur fær eitt stig úr honum en gestirnir tvö. Miguel Angel og José Federico voru atkvæðamestir í heimaliðinu.
Karlalið Þróttar hvílir um næstu helgi en kvennaliðið spilar gegn Þrótti í Reykjavík á föstudagskvöldið.
Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða