Vetrarstarf austfirskra bridge-spilara komið á fullt
Fyrsti paratvímenningurinn í mótaröð Bridgesambands Austurlands var spilaður á Egilsstöðum fyrir skemmstu. Austurlandsmótið í tvímenningi fer fram á Seyðisfirði um helgina. Góð þátttaka hefur verið í þeim mótum sem búin eru í haust.
Það voru Jóhanna Gísladóttir og Skúli Sveinsson sem urðu hlutskörpust í paratvímenningnum með 148 stig. Guðný Kjartansdóttir og Sigurður Stefánsson urðu í öðru sæti með 138 stig og Sigríður Gunnarsdóttir og Jón Einar Jóhannsson þriðju með 133 stig. Átta pör mættu til leiks.
Níu sveitir voru í Hraðsveitakeppninni sem fram fór á Reyðarfirði. Sveit Brimbergs, skipuð þeim Einari H. Guðmundssyni, Jóni Halldóri Guðmundssyni, Kristni Valdimarssyni og Sigurði Valdimarssyni fékk þar flest stig, 802 talsins. Sveit Haustaks varð önnur með 783 stig, stigi á undan sveit Suðurfjarðarmanna.
Næsta mót verður Austurlandsmótið í tvímenningi á Seyðisfirði um helgina.