Viðar Örn þjálfar körfuknattleikslið Hattar

hottur_thjalfarar_web.jpgÍþróttafræðingurinn Viðar Örn Hafsteinsson hefur verið ráðinn aðalþjálfari karlaliðs Hattar í körfuknattleik. Viðar tekst á við nokkuð stórt verkefni en hann er aðeins 26 ára gamall.

 

Viðar, sem er heimamaður, snéri heim í Egilsstaði í fyrra og spilaði með Hetti eftir nokkurra ára hlé en hann var í leikmannahópnum sem fór með liðinu upp í úrvalsdeildina árið 2005. Hann þjálfaði í fyrra 10. flokk félagsins sem varð bikarmeistari. Hann verður einnig yfirþjálfari yngri flokka og stýrir drengjaflokki og 11. flokki.

Þá hefur Frosti Sigurðsson verið ráðinn þjálfari hjá yngri flokkum Hattar og mun leika með liðinu í vetur. Frosti mun einnig hafa umsjón með körfuknattleiksakademíu sem rekin verður við Menntaskólann á Egilsstöðum. Líkt og Viðar er Frosti heimamaður en þeir hafa báðir á undanförnum árum leikið með Hamri og Laugdælum. Þeir eru báðir íþróttakennarar að mennt .

Í tilkynningu frá körfuknattleiksdeildinni segir að miklar vonir séu bundnar við ráðningu þeirra og stefnan sett á að halda áfram að byggja upp öflugt starf í yngri flokkum félagsins.

Magnús Þór Ásmundsson formaður körfuknattleiksdeildar Hattar ásamt Viðari (t.h.) og Frosta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar