Viðar Jóns: Spurning um hvort liðið væri betra í hornspyrnum og löngum innköstum
Þjálfari Leiknis sagði erfitt hafa verið að spila á móti strekkingsvindi eftir endilöngum Eskifirði þegar liðið gerði 2-2 jafntefli gegn nágrönnum sínum í Fjarðabyggð í gærkvöldi. Jöfnunarmark Leiknis kom rúmum tveimur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma.
„Við náðum að koma til baka og það var það eina stóra jákvæða fyrir mitt lið í dag,“ sagði þjálfarinn Viðar Jónsson í samtali við Austurfrétt eftir leik.
„Vindurinn hafði klárlega áhrif á hvernig leikurinn spilaðist. Það var erfitt að spila á móti vindinum og að auki var völlurinn ósléttur. Þetta varð spurning um hvort liðið væri betra í hornspyrnum, innköstum og slíku.
Ég sagði við mína leikmenn að þetta snérist um að reyna að halda markinu eins lengi hreinu í fyrri hálfleik og hægt væri. Við töluðum líka um að gefa þeim ekki aukaspyrnur en við brutum tvisvar aulalega á þeim og þeir skoruðu úr þeim. Ég er ekki ánægður með það.
Þá var ekki um annað að ræða en svara á svipaðan hátt í seinni hálfleik og við nýttum horn og löng innköst til að skora okkar mörk.“
Heyra mátti í Viðari í miðjan fyrri hálfleik þar sem hann kallaði á leikmann að ekki þýddi neitt að reyna að spila boltanum heldur yrði að „bomba honum fram.“
„Það þýðir ekkert fyrir bakvörð að spila til baka á markvörð undir pressu við svona aðstæður. Það verður bara að koma boltanum frekar upp kantinn. Þetta var uppleggið okkar í fyrri hálfleik, bara að reyna að komast í gegnum hann.“
Tvö skallamörk í seinni hálfleik færðu Leikni eitt stig. Liðið er eftir sem áður á botninum með níu stig, fimm sætum frá öruggu sæti.
„Við horfum með öðru auganu á töfluna. Við settum okkur markmið fyrir seinni umferð deildarinnar sem var að gera betur en í þeirri fyrri. Nú erum við komnir með tvö stig úr tveimur leikjum en í vor vorum við stigalausir eftir fimm umferðir.
Við gerum okkur grein fyrir að þetta er erfitt en við gefumst ekki upp fyrr en eftir síðasta leik. Svo lítum við á töfluna þegar það er búið.“
Leiknir varð fyrir áfalli um daginn þegar fyrirliðinn Björgvin Stefán Pétursson meiddist það illa að hann leikur ekki meira í sumar. Liðið hefur þegar bætt við sig einum leikmanni eftir að opnað var fyrri félagaskipti um miðjan júlí og horft er eftir fleirum.
„Ég reikna með að fá framherja erlendis frá fyrir næsta leik. Við horfðum á íslenska markaðinn það gekk ekki. Við viljum styrkja okkur því Björgvin datt út, leikmenn eru jafnvel að fara í frí og menn hafa fengið slatta af gulum spjöldum í sumar.“