Viðar Jónsson: Þurftum að skora tvö þegar tíu mínútur voru eftir – svo man ég ekki meira

Viðar Jónsson, þjálfari Leiknis, segir minningar sínar frá lokamínútum í ótrúlegum 2-7 sigri Leiknis á HK í dag vera óljósar. Sigurinn varð til þess að liðið hélt sæti sínu í fyrstu deild karla í knattspyrnu.


„Tilfinningin er fáránleg eða óraunveruleg en ég sagði við strákana á liðsfundi í dag að menn yrðu að láta sig dreyma og svo framkvæma drauminn. Ef þig getur dreymt það þá geturðu gert það,“ sagði Viðar í samtali við Austurfrétt eftir að liðið kom austur í kvöld.

Það er margt ótrúlegt við flóttann mikla frá fallinu. Í fyrsta lagi þurfti Leiknis að snúa við sjö marka forskoti Hugins í deildinni en Seyðisfjarðarliðið tapaði 4-1 á Selfossi í dag. Viðsnúningurinn sem felldi Seyðfirðinga varð á lokamínútunum.

Hefði verið auðvelt að gefast upp í hálfleik

Í öðru lagi var staðan jöfn, 2-2 í Kópavoginum í hálfleik. Kristófer Páll, sonur Viðars, skoraði fjögur mörk í dag þar af eitt á 88. mínútu og annað á 90. sem skiptu miklu máli.

„Við fylgdumst með því sem var að gerast hinu megn og við vissum að Selfoss var 3-1 yfir í hálfleik. Ég sagði við strákana að ef við skoruðum 2-3 mörk og Selfoss bætti við þá ættum við möguleika.

Það hefði verið auðvelt að vera neikvæður og ætlast til að þetta væri búið en mitt hlutverk sem þjálfara var að fá leikmenn til að hafa trú á verkinu. Ég hef allan tíman trúað og reynt að stappa stálinu í menn. Í dag fórum strákarnir út ákveðnir í að gera sitt besta.

Þegar tíu mínútur voru eftir þurftum við að skora tvö mörk. Svo man ég ekki mikið meira. Ég frétti að einn leikmanna HK hefði fengið rautt spjald einhvers staðar í lokin en ég tók ekki eftir því.

Um leið og Kristófer skoraði sjöunda markið öskraði ég á liðið að detta til baka og hugsa um vörnina. Við vorum búnir að skipta sóknarmönnum inn fyrir varnarmenn og urðum að klára þessar mínútur sem eftir voru í uppbótartímanum.“

Ekki verri tilfinning en að fara upp

Vikan fór í sóknaræfingar hjá Leikni. Æfð voru skot, fyrirgjafir, að fylgja eftir og skalla færi. Það skilaði sér í dag því Viðar segir liðið hafa skorað „úr ótrúlegustu færum.“

Það verður líka að hafa í huga að Leiknir, sem var nýliði í deildinni, hefur verið í fallsæti síðan í annarri umferð. Fyrsti sigurinn vannst ekki fyrr en í sjöttu umferð og þegar mótið var hálfnað var liðið kyrfilega á botninum með aðeins sjö stig.

Risa liðsins hefur líka verið hröð og það farið upp um tvær deildir á síðustu tveimur árum. „Við höfum upplifað að fara upp um deild og það er gaman en þetta er ekki verra. Það er afrek að halda sér í þessari frábæru deild.“

Fyrir leikinn var búið að fresta lokahófi liðsins sem vera átti í kvöld því vertíð er á Fáskrúðsfirði og hugðust margir leikmenn koma heim til að vinna. Allmargir breyttu plönum sínum eftir leik og fagna í höfuðborginni í kvöld.

Viðar og Kristófer komu hins vegar austur og hafa kvöldið til að átta sig á atburðum dagsins. „Þetta snýst um að toppa á réttum tíma. Ég sagði við strákana í Lengjubikarnum í vor að við værum á rétti leið því við vorum að búa til fyrirsagnirnar. Í dag bjuggum við til fullt af fyrirsögnum og þær eru merki um að við séum að gera eitthvað gott.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar