Viðar Örn: Drullusvekktur en samt stoltur því við gerðum vel

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var að vonum svekktur eftir að Hetti mistókst naumlega að skrifa eina af sögum Öskubusku í íslenskan körfubolta með að slá Íslandsmeistara KR út í bikarkeppni karla í gærkvöldi. Vesturbæjarveldið vann í lokin 87-92 eftir að hafa verið undir þegar innan við mínúta var eftir.


„Við vorum einni sókn frá því að vinna. Það er drullufúlt núna en ég hugsa kannski um það einhvern næstu daga að vorum næstum búin að vinna KR,“ sagði Viðar Örn í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.

„Ég er mjög ánægður með hvernig mínir menn börðust í gegnum leikinn og héldu sig við leikplanið. Lengst af í leiknum stjórnuðum við hraðanum og KR komst helst á stig þegar liðið náði að herða á leiknum.

Við ætluðum að ráðast á þá þegar þeir voru að skiptast á skrínum og Aron gerði vel í því í dag og bjó þannig bæði til færi fyrir sig og aðra. Mirko var frábær í teignum, Ragnar setti niður flott skot og Sigmar spilaði hörkuvörn á Jón Arnór (Stefánsson) þannig hann þurfti oft að taka mjög erfið skot.

Við lentum undir í þriðja leikhluta eftir að Jón Arnór tók sig til og skoraði slatta af stigum. Við náðum hins vegar að koma til baka og komast yfir.

Það er hins vegar munurinn á margföldum meisturum og liðinu sem féll í fyrr að klára leikina. KR-ingar eru frábærir en við erum drullugóðir líka. Mér fannst munurinn í dag liggja í einum manni sem er besti körfuknattleiksmaður sem Íslendingar hafa átt og heitir Jón Arnór Stefánsson.“

Viðar Örn vonast til að Hattarliðið haldi áfram að spila jafn vel í næstu leikjum í deildinni.

„Það er aldrei jákvætt að tapa. Ég er drullusvekktur en samt stoltur af mínum mönnum því við gerðum vel. Ég vil sjá sama spil í stórum leikjum nú í janúar gegn Breiðabliki og Fjölni. Við megum ekki verða værukærir þótt við höfum getað spilað vel gegn KR.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar