Viðar Örn: Ef þetta væri póker þá færi ég „all in“ á sigur í næsta leik – Myndir

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, kvaðst sáttur við framfarir í sínu liði þrátt fyrir 81-84 ósigur gegn Tindastóli í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á Egilsstöðum í gær. Gestirnir skoruðu sigurkörfuna þegar tvær sekúndur voru eftir.


Það hefur verið saga Hattar að spila vel í 30-35 mínútur í leikjum í vetur en glopra svo leiknum niður á 5-10 slæmum. Því miður varð leikurinn í gær ekki undantekning í gær.

Eftir að gestirnir frá Sauðárkróki höfðu tekið tekið forustuna í byrjun og gert sig líklega til að keyra upp hraðann með snörpum sóknum og ákafri framliggjandi vörn fundu Hattarmenn fljótt lausnir.

Svæði opnuðust á milli manna í framliggjandi vörninni og á bakvið hana og í sóknarleiknum gerðu gestirnir sig seka um fjölda mistaka í óðagotinu.

Höttur var þannig yfir eftir fyrsta, annan og þriðja leikhluta – en ekki þann fjórða og það er það sem máli skiptir.

Hraðinn tók sinn toll og Tindastólsliðið var með breiðari hóp. Liðið er til dæmis með tvo Bandaríkjamenn sem skipta með sér leiktíma og tvo aðra sem fengið hafa íslenskt vegabréf auk nokkurra sterkra Íslendinga.

Þeir settu líka upp varnarmúr sem sókn Hattar keyrði á í lokin. Þremur mínútum fyrir leikslok voru gestirnir komnir í 73-80 forskot en þá kom góður kafli Hattar sem byrjaði á þriggja stiga körfu Sigmars Hákonarsonar, sem átti sinn besta leik fyrir Hött í gær. Hattarmenn náðu að jafna í 81-81 þegar tíu sekúndur voru eftir.

Hattarvörninni hefur hins vegar haldið illa á lokamínútunum. Stólarnir settu upp í kerfi fyrir Darrel Lewis sem dró til sín Hattarmenn, fann Pétur Rúnar Birgisson, sem hafði verið hljóður til þessa niður í aldræmu vinstra horninu og hann setti niður þriggja stiga körfu.

Þá var 1,8 sekúnda eftir af leikklukkunni og Hattarmönnum tókst að setja upp þriggja stiga skot fyrir fyrirliðann Hrein Gunnar Birgisson sem skot hans skoppaði fór í spjaldið, hringinn og niður.

„Það er helvítis vinstra hornið. Þetta er þriðji leikurinn sem við töpum þaðan. Logi Gunnarsson jafnaði gegn okkur í Njarðvík, svo er það Sherrod Wright gegn okkur í þriðju umferð og nú Pétur Pan. Ég er nokkuð viss um að ef Hjalti Stefánsson myndatökumaður kastaði boltanum úr vinstra horninu þá færi hann ofan í,“ sagði Viðar Örn eftir leikinn.

„Við reyndum möguleika í sókninni sem gengu ekki upp. Það voru hlutir sem ég bað leikmennina um að gera en þeir festust kannski í þeim full lengi.

Tindastólsliðið er öflugt og hópurinn breiður. Við notum bekkinn ekki jafn mikið og það er kannski eitthvað sem við þurfum að horfa í. Menn eru orðnir þreyttir. Mér fannst við hins vegar hafa betra vald á þessum leik en þeim síðustu og ég er ánægður með karakterinn sem við sýnum með að jafna í lokin eftir að hafa verið sjö stigum undir.

Ég held að við höfum verið yfir í 30 mínútur. Við spilum fyrri hálfleikinn ljómandi vel en þurfum greinilega að gera aðeins betur. Sigrarnir hljóta samt að fara að detta. Ef þetta væri póker þá færi ég „all in“ á sigur í næsta leik.“

Myndir: Atli Berg Kárason

Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0051 Web
Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0058 Web
Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0072 Web
Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0075 Web
Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0079 Web
Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0093 Web
Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0103 Web
Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0142 Web
Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0157 Web
Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0161 Web
Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0171 Web
Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0190 Web
Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0215 Web
Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0256 Web
Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0269 Web
Karfa Hottur Tindastoll Feb16 0273 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar