Viðar Örn: Get ekki annað en hrósað liðnu fyrir þennan varnarleik – Myndir
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari körfuknattleiksliðs Hattar, sagði liðið hafa sýnt frábæran varnarleik í 66-69 ósigri gegn Keflavík á Egilsstöðum á föstudagskvöld. Til þess hafði Keflavík skorað 86 stig eða fleiri í hverjum deildarleik.
„Það er fáránlega öflugur varnarleikur að halda Keflvíkingum undir 70 stigum. Ég get ekki annað en hrósað mínu liði fáránlega mikið fyrir varnarleikinn.
Við fórum yfir þeirra leikkerfi bæði á myndböndum og æfingum, eins og við gerum fyrir alla leiki. Þetta kostaði mikinn tíma og næturvinnu en ætli að hún verði ekki að vera enn meiri til að við náum að brúa bilið í hin liðin. Okkar sóknarleikur var hins vegar stirður, sérstaklega gegn pressu- og svæðisvörn þeirra.“
Varnarlega var leikurinn á föstudagskvöld einn sá besti hjá Hetti í vetur. Keflavík hefur átt eitt besta lið Íslandsmótsins og var Höttur yfirleitt með yfirhöndina þar til rétt í lok hvers leikhluta. Sóknarleikur liðanna var hins vegar ekki burðugur. Hattarmenn hittu illa og Keflvíkingar gerðu mikið af mistökum, svo sem að senda í hendur Hattarmanna.
Höttur mætir næst Íslandsmeisturum KR í Frostaskjólinu. „Það verður spennandi að fara í höllina og taka á KR-ingum. Það eru forréttindi fyrir sveitastráka á fyrsta ári í efstu deild að gera það. Við reynum að berja þá niður eins og Keflvíkinga til að landa sigri.“
Myndir: Atli Berg Kárason