Viðbúið að makrílveiðin færist fyrr en síðar yfir í Smuguna

Íslensku makrílveiðiskipin hafa undanfarna daga þokast jafnt og þétt til norðurs. Veiði er enn innan íslensku landhelginnar en hún er afar sveiflukennd.

Íslensku skipin eru nú að veiðum um 180 mílur austur af Glettingi, um 50 mílur frá landhelgislínunni. Hinu megin tekur hið alþjóðlega hafsvæði Smugan.

Aðalsteinn Jónsson, skip Eskju á Eskifirði, lagði af stað heim af miðunum um klukkan tíu í morgun með 1370 tonn. Eskja er í veiðisamstarfi við Brim og er skipst á að fylla eitt skipa félaganna sem siglir til hafnar. Á Vopnafirði er verið að landa upp úr Svani, skipi Brims og á miðunum verið að fylla í Víking.

Jón Kjartansson frá Eskju er síðan næstur í röðinni. Skipið fór út á laugardag eftir að hafa landað 1100 tonnum. Baldur M. Einarsson, útgerðarstjóri Eskju, segir vinnsluna ganga vel en helsta vandamálið sé að hafa nægt hráefni.

„Veiðin hefur frekar blettótt. Það kemur einn og einn dagur með góðri veiði en síðan hefur yfirleitt verið hægt að bóka að ekkert veiðist daginn eftir. Það er jafnvel munur á veiði milli skipa sem eru hlið við hlið,“ segir hann.

Íslensku skipin voru lengi vel við landhelgislínuna milli Ísland og Færeyja en hafa smám saman færst norðar á bóginn. „Skipin hafa eiginlega sígið norður eftir dag frá degi. Það er viðbúið að veiðin færist til austurs og endi í Smugunni áður en langt um líður,“ segir Baldur.

Samkvæmt tölum frá Fiskistofu síðan á föstudag var búið að veiða rúm 27 þúsund tonn af makríl á þessari vertíð. Slétt 100.000 tonn eru þá eftir af útgefnum kvóta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar