Víglundur Páll: Vorum ekki tilbúnir í baráttuna
Víglundur Páll Einarsson, þjálfari Fjarðabyggðar, sagði sitt lið ekki hafa verið tilbúið í þá baráttu sem leikmenn Hugins sýndu þegar liðin mættust á Seyðisfirði fyrstu deild karla í knattspyrnu á Seyðisfirði í gærkvöldi. Huginn vann leikinn 1-0.
„Mér fannst okkar frammistaða alls ekki nógu góð því við sýndum ekki sömu baráttu og Huginsmenn. Við vissum að við mættum þar hvergi gefa eftir ef við ætluðum að vera nálægt þeim en þeir voru einfaldlega grimmari.
Við vorum ótrúlega lengi í gang, mætum hreinlega ekki til leiks. Síðan spilum við ekki okkar leik og höldum ekki boltanum,“ sagði Víglundur í samtali við Austurfrétt eftir leikinn í gær.
Fjarðabyggð varð fyrir miklu áfalli um miðjan seinni hálfleik þegar markvörðurinn Sveinn Sigurður Jóhannesson fór meiddur af leikvelli. Hann reif lærvöðva og verður ekki meira með í sumar.
Varnarmaðurinn Andri Þór Magnússon fór í markið í hans stað þar sem Fjarðabyggð var ekki með varamarkvörð. Víglundur viðurkenndi að það hefði haft áhrif en annað hefði ráðið úrslitum leiksins.
„Eftir skiptinguna fáum við þrjú úrvalsfæri sem við nýtum ekki. Ef við gerum það ekki í svona leik er okkur refsað.
Venjulegur markvörður hefði líklegast varið skallann en ég kenni Andra ekki um markið. Það kemur samt ákveðið óöryggi í vörnina þegar svona breyting verður.“
Ósigurinn hefur ekki teljandi áhrif á stöðu Fjarðabyggðar í deildinni og er Víglundur bjartsýnn fyrir seinni hluta Íslandsmótsins. „Við höfum spilað vel. Þessi, útileikurinn gegn Selfossi og seinni hálfleikurinn gegn Huginn á heimavelli eru okkar verstu leikir. Utan þess höfum við kannski hitt á 10-15 daprar mínútur í hverjum leik en við höfum líka sýnt að við getum unnið öll liðin í deildinni.“