Vígsludagskrá á gervigrasvellinum í Neskaupstað frestað

Vígsludagskrá sem far átti fram í dag á endurbættum knattspyrnuvelli í Neskaupstað hefur verið frestað vegna banaslyssins á Vesturöræfum í gær. Leikur KFA og Hattar/Hugins verður í staðinn leikinn í Fjarðabyggðarhöllinni.

Tæplega fertugur karlmaður lést í gærmorgun af völdum voðaskots við gæsaveiðar á Vesturöræfum. Í tilkynningu SÚN til Norðfirðinga segir að samfélagið sé lamað vegna þessa sorglega slyss. Vígsludagskrá SÚN-vallarins er því frestað.

Hápunkturinn í dagskránni í dag átti að vera leikur KFA og Hattar/Hugins í annarri deild karla í knattspyrnu. Sá leikur getur ráðið því hvort liðið á áfram möguleika á að komast upp um deild. Leikurinn verður eftir sem áður leikinn klukkan 18:00 í dag en hefur verið færður yfir í Fjarðabyggðarhöllina á Reyðarfirði.

Í tilkynningum KFA, Hattar/Hugins og SÚN eru fjölskyldu og aðstandendum vottuð hin dýpsta samúð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar