Vika í Barðsneshlaup: Jafnvel meiri ögrun en Laugarvegurinn
Barðsneshlaup verður hlaupið í tuttugasta sinn á laugardaginn eftir viku. Hlaupið er 27 km langt og komið er í mark fyrir framan sviðið á Neistaflugi. Landslagið á leiðinni og hæfilegar torfærur laða hlauparana að henni.
„Það eru yfirleitt allir sem hlaupa þessa leið mjög hrifnir af henni. Laugarvegshlaupararnir segja að hún sé jafnvel erfiðari. Hún er styttri svo menn reyna að hlaupa hana hraðar,“ segir Jóhann Tryggvason, einn skipuleggjenda hlaupsins.
Bæði er í boði fullt hlaup frá Barðsnesi en líka hálft hlaup. Hlauparar eru ferjaðir á rásstað á bát en koma í mark fyrir framan aðalsvið bæjarhátíðarinnar Neistaflugs. Leiðin er lengst af fjárgötur og hestagötur og minnir því um margt á Laugarveginn. „Leiðin er hæfilega forfær en vel fær.“
Þorbergur Ingi Jónsson, fremsti fjallahlaupari Íslendinga sem er jafnframt uppalinn Norðfirðingur og ættaður frá Barðsnesi á besta tímann í sögu hlaupsins, rétt undir tveimur tímum.
Veður hefur stundum gert skipuleggjendum erfitt fyrir en aldrei hefur fallið niður hlaup síðan það var fyrst haldið árið 1997. Þeir fóru leiðina fyrr í vikunni og bættu úr merkingum þar sem þess var þörf.
Keppnin nú er orðin hluti af austfirsku þríþrautinni Álkarlinum ásamt Urriðavatnssundinu, sem fram fer um helgina, og hjólreiðakeppninni Tour de Orminum um miðjan ágúst. Umgjörð hlaupsins í ár verður óvenju vegleg þar sem þetta er í tuttugasta sinn sem það er hlaupið.
Keppendur hafa flestir verið um 80 og flestir komist klakklaust í mark. „Við vorum einu sinni við að fara að gera mjög víðtæka leit að einum þegar við fundum hann í sundlauginni. Hann hafði snúið sig á leiðinni og húkkað sér far með trillu inn í Neskaupstað.“
Nánar um Barðneshlaupið á Facebook, heimasíðu þess eða hlaup.is.