Víkingurinn hefst á morgun

Aflraunakeppnin Víkingurinn hefst á morgun þegar sterkustu menn landsins halda í ferðalag um suðurströndina, austfirði og enda svo á Breiðdalsvík. Keppt verður í fjórum sveitarfélögum alls undir stjórn Magnúsar Ver Magnússonar.

 

Í fyrra fagnaði aflraunakeppnin, Vestfjarðavíkingurinn, 30 ára afmæli sínu, það var jafnframt síðasta keppnin sem fór fram undir því nafni. Nú hafa aflraunakeppnirnar Vestfjarðavíkingurinn, Austfjarðatröllið og Norðurlandsjakinn verið sameinaðar í eina alsherjar keppni undir nafninu Víkingurinn sem kemur til með að verða árlegur viðburður.


„Þetta var bara orðið of mikið og kostnaðarsamt. Svona getum við ferðast hvert á land sem er og haft það svoldið opið ár frá ári“ útskýrði Magnús á leið sinni til Keflavíkur. „Við erum með kassabíl með lyftu sem við erum að fara að troðfylla af dóti til þess að taka með í ferðalagið.“


Sterkasti maður heims notað sem fyrirmynd
Þetta árið mun keppnin fara fram í Ölfus, Rangárþingi ytra, Múlaþingi og Fjarðabyggð. „Meiningin er að fara alltaf í 4 sveitarfélög. Það sýndu þessu talsvert fleiri áhuga en það í ár en þetta leit bara best svona út núna.“ Segir Magnús um fyrirkomulagið „svona gefur það líka fleiri áhorfendum færi á að sjá. Hugmyndin kom upphaflega frá Sterkasti maður heims en þetta var alltaf svona þegar ég var að byrja að keppa.“ Magnús er eins og margir vita fyrrum aflraunakeppandi og fjórfaldur Sterkasti maður heims. „Þá fórum við á ýmsa staði að keppa hverju sinni. Í dag er orðið meira um að það sé keppt á einu svæði, íshokkíhöllum eða álíka.“


Keppt verður í Drumbalyftu og Þórshamarshaldi í Trjásafninu í Hallormsstaðaskógi Laugardaginn 15.júlí kl 16:00 en fyrr um morguninn verður keppt í Bryggjupollagöngu og Herkúlesarhaldi við Safnarhúsið á Neskaupsstað kl 11:00.


Staðhættir og tröllasögur
Magnús talar um að finnast það alltaf fylgja því meiri sjarmi að fara á milli staða, að keppa í mismunandi umhverfum og gefa þannig hverjum stað sitt rými og sögu. „Þannig er hægt að fjalla um staðsetningar og staðhætti hvert fyrir sig. Samúel Örn Erlingsson verður með okkur, eins og áður, en hann er algjör snillingur í því að grafa upp einhverjar tröllasögur í lýsingum sínum.“

Það eru skráðir 9 keppendur í ár og koma þeir héðan og þaðan „það eru samt alveg tveir sem ekki taka þátt af því þeir voru búnir að kaupa sér miða á Rammstein tónleika einhversstaðar úti í heimi“ segir Magnús léttur í bragði.

Taka upp sjónvarpsþátt
Sjónvarpsefni aflraunakeppna hefur gjarnan gert vel í áhorfi, keppnir eins og Vestfjarðavíkingurinn hafa oft orðið að sjónvarpsefni og er engin breyting þar á með Víkinginn „Við erum að gera sjónvarpsþátt fyrir RÚV sem verður svo sýndur einhverntíman þegar búið er að snyrta þetta til. Það hefur alltaf verið vel heppnað, einhverntíman var áhorfið meira að segja 10% meira heldur en fréttatíminn sem var þá á undan.“ Aðspurður um ástæður þess telur hann það tengjast því hvað þessar keppnir séu fjölbreyttar og öðruvísi „þetta eru ekki bara réttstöðulyftingar með lóðum í einhverjum sal heldur eru menn að kasta steinum, draga bíla, lyfta drumbum og greinarnar alltaf breytilegar, sem ég held að flestir hafi gaman af.“

Það er því ekki víst að bíltúrinn fyrir austfirska áhorfendur verði svo stuttur á næsta ári. „Við vitum í raun ekkert hvert við förum á næsta ári, það fer svolítið eftir því hvaða sveitarfélög vilja vinna með okkur það skiptið“ segir Magnús og hvetur heimamenn til þess að koma og hvetja heljarmennin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar