Viktor þrefaldur Íslandsmeistari
Tveir keppendur frá UÍA mættu til leiks á Unglingameistaramót Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fór í Hafnarfirði á dögunum. Alls uppskáru þeir fimm verðlaun.Fáskrúðsfirðingurinn Viktor Ívan Vilbergsson hafði sigur í öllum sínum greinum og er því þrefaldur Íslandsmeistari í flokki 15 ára pilta. Í 300 metra hlaupi sigraði hann á tímanum 40,51 sekúndu. Þá unnust sigrar í 600 metra hlaupi, þar sem hann hljóp á 1 mínútu 39,23 sekúndum, og 1.500 metra hlaupi þar sem sigurtíminn var 5 mínútur 4,8 sekúndur, sem í báðum tilfellum er besti tími sem Viktor hefur náð í þessum greinum.
Auk Viktors keppti Héraðsbúinn Friðbjörn Árni Sigurðarson fyrir hönd UÍA á mótinu í kastgreinum í flokki 16-17 ára pilta. Hann nældi sér í tvenn bronsverðlaun, í sleggjukasti og spjótkasti. Árangurinn í spjótkasti var einkum og sér í lagi góður, en þar setti Friðbjörn persónulegt met með kasti upp á 43,77 metra og varð efstur keppenda á yngra ári í þessum aldursflokki.
Friðbjörn Árni hefur stundað æfingar hjá frjálsíþróttadeild Hattar, og Viktor Ívan sömuleiðis öðru hvoru. Friðbjörn stefnir í skóla á Akureyri næsta vetur og mun þá stunda æfingar með UFA.
Friðbjörn Árni og Viktor Ívan kampakátir eftir gott meistaramót. Mynd: Aðsend.