Viktor þrefaldur Íslandsmeistari

Tveir keppendur frá UÍA mættu til leiks á Unglingameistaramót Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fór í Hafnarfirði á dögunum. Alls uppskáru þeir fimm verðlaun.

Fáskrúðsfirðingurinn Viktor Ívan Vilbergsson hafði sigur í öllum sínum greinum og er því þrefaldur Íslandsmeistari í flokki 15 ára pilta. Í 300 metra hlaupi sigraði hann á tímanum 40,51 sekúndu. Þá unnust sigrar í 600 metra hlaupi, þar sem hann hljóp á 1 mínútu 39,23 sekúndum, og 1.500 metra hlaupi þar sem sigurtíminn var 5 mínútur 4,8 sekúndur, sem í báðum tilfellum er besti tími sem Viktor hefur náð í þessum greinum.

Auk Viktors keppti Héraðsbúinn Friðbjörn Árni Sigurðarson fyrir hönd UÍA á mótinu í kastgreinum í flokki 16-17 ára pilta. Hann nældi sér í tvenn bronsverðlaun, í sleggjukasti og spjótkasti. Árangurinn í spjótkasti var einkum og sér í lagi góður, en þar setti Friðbjörn persónulegt met með kasti upp á 43,77 metra og varð efstur keppenda á yngra ári í þessum aldursflokki.

Friðbjörn Árni hefur stundað æfingar hjá frjálsíþróttadeild Hattar, og Viktor Ívan sömuleiðis öðru hvoru. Friðbjörn stefnir í skóla á Akureyri næsta vetur og mun þá stunda æfingar með UFA.
Friðbjörn Árni og Viktor Ívan kampakátir eftir gott meistaramót. Mynd: Aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.